Erlent

Um­fangs­miklar og óút­skýrðar raf­magns­truflanir á Íberíu­skaga

Kjartan Kjartansson skrifar
Horft eftir Gran Vía sem liggur í gegnum miðborg Madridar. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Horft eftir Gran Vía sem liggur í gegnum miðborg Madridar. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Getty

Rafmagni hefur slegið út um allan Spán og Portúgal í dag en engar skýringar liggja fyrir á truflununum. Netöryggisstofnun Spánar rannsakar hvort að tölvuárás kunni að valda rafmagnsleysinu.

Tilkynningar um rafmagnstruflanir byrjuðu að berast upp úr hádegi að spænskum tíma í dag, að sögn spænska blaðsins El País. Þær hafa borist frá öllum sjálfstjórnarhéruðum landsins, fyrir utan Balear- og Kanaríeyjar, og Portúgal. Samkvæmt rauntímagögnum virðist orkunotkun hafa dregist saman um helming á landsvísu á Spáni frá hádegi.

Þau orkufyrirtæki sem blaðið náði sambandi við höfðu ekki skýringar á orsökunum. Spænsk stjórnvöld rannsaka nú truflanirnar og hvað veldur þeim. INCIBE, netöryggisstofnun Spánar, rannsakar meðal annars hvort að töluvárás kunni að vera orsökin.

Unnið er að því að koma rafmagni aftur á í áföngum samkvæmt Red Eléctrica, opinberu fyrirtæki sem rekur dreifikerfi Spánar.

Truflanirnar eru sagðar hafa raskað fjarskiptum og flugvallar- og lestarsamgöngum. Reuters-fréttastofan vitnar í spænskar útvarpsstöðvar sem fullyrða að neðanjarðarlestarkerfið í spænsku höfuðborginni Madrid hafi verið rýmt og að umferðaöngþveiti hafi myndast á götum borgarinnar eftir að umferðarljós slökknuðu.

Á flugvellinum í Lissabon í Portúgal er ófremdarástand sagt ríkja þar sem þúsundir farþega setja föst. Portúgölsk stjórnvöld hafa heldur engar skýringar á ástandinu. Vefmiðillinn Euronews segir að rafmagnslaust sé einnig á Barajas-flugvelli í Madrid.

Sami miðill segir ýmsar tilgátur um orsakir rafmagnsleysisins, meðal annars um að það tengir röskunum á evrópska dreifikerfinu. Mögulega hafi eldur sem skemmdi háspennustöð í Suðvestur-Frakklandi átt þátt í truflununum. Portúgalski fjölmiðillinn Espresso hefur eftir dreififyrirtækinu þar að rafmagnsleysið sé vegna truflana í evrópska dreifikerfinu.

Starfsemi sjúkrahúsa hefur haldist stöðug en þau eru með varaaflsstöðvar. Starfsfólki þar hefur þó verið sagt að nota ekki tölvur til þess að draga úr rafmagnsnotkun eins og hægt er.

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×