Íslenski boltinn

„Fannst ekkert gerast nema Fanndís væri að gera eitt­hvað“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fanndís Friðriksdóttir var allt í öllu í sóknarleik Vals í 3-0 sigrinum á Þór/KA.
Fanndís Friðriksdóttir var allt í öllu í sóknarleik Vals í 3-0 sigrinum á Þór/KA. vísir/anton

Sérfræðingar Bestu marka kvenna fóru yfir mikilvægi Fanndísar Friðriksdóttur í sóknarleik Vals í síðasta þætti.

Fanndís átti góðan leik þegar Valur lagði Þór/KA að velli, 3-0, í 3. umferð Bestu deildarinnar á þriðjudaginn. Fanndís skoraði eitt mark og átti stóran þátt í hinum tveimur.

„Mér fannst ekkert gerast sóknarlega í þessum tiltekna leik nema Fanndís væri að gera eitthvað. Hún skorar eitt og leggur upp tvö,“ sagði Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir í Bestu mörkunum.

Henni fannst leikurinn á Hlíðarlega annars ekki merkilegur.

„Mér fannst þessi leikur ekkert eðlilega óspennandi hvernig hann spilaðist. Þegar Valur skoraði fyrsta markið var þetta aldrei spurning. Þær eru ekki líklegar til að missa niður ef þær komast yfir,“ sagði Bára.

Klippa: Bestu mörk kvenna - Umræða um Fanndísi og Val

„Það er líklegra ef lið kemst yfir á móti þeim að það nái að halda þeim. Það er erfitt að jafna þær og komast yfir þannig mér fannst þetta einhvern veginn renna út í sandinn þegar þær komust yfir.“

Valur er í 2. sæti Bestu deildarinnar með sjö stig og hefur ekki enn fengið á sig mark. Næsti leikur liðsins er gegn Stjörnunni í Garðabænum á laugardaginn.

Innslagið úr Bestu mörkunum má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×