Uppnám varð í morgun þegar tilnefning Merz sem kanslara var felld. Það var í fyrsta skipti í sögu Þýskalands eftir seinna stríð sem kanslaraefni náði ekki kjöri í fyrstu lotu. Merz vantaði sex atkvæði upp á til að ná kjöri þrátt fyrir að Kristilegir demókratar (CDU/CSU) og Sósíademókratar (SPD) hafi saman tólf sæta meirihluta á þinginu.
Atkvæðagreiðslurnar eru leynilegar og því liggur ekki fyrir hvaða þingmenn verðandi stjórnarflokkanna hlupust undan merkjum í morgun. Níu þingmenn greiddu ekki atkvæði og þrír skiluðu auðu en 307 greiddu atkvæði gegn Merz. Vitað var að ekki væri fullkominn einhugur innan SPD um stjórnarsamstarfið.
Allir flokkarnir á þingi greiddu atkvæði með því að önnur atkvæðagreiðsla yrði haldin strax í dag. Í annarri atrennunni sem var haldin nú um miðjan dag hlaut Merz 325 atkvæði en hann þurfti 316 til þess að ná kjöri. Í þetta skiptið greiddu 289 þingmenn atkvæði gegn honum.
Þingmenn risu á fætur og klöppuðu Merz lof í lófa eftir að úrslitin lágu fyrir, að sögn danska ríkisútvarpsins.
Fréttin verður uppfærð.