Erlent

Misstu aðra her­þotu í sjóinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Flugmóðurskipið Harry S. Truman. Þar hefur mikið gengið á að undanförnu og hefur skipið verið notað til árása gegn Hútum í Jemen.
Flugmóðurskipið Harry S. Truman. Þar hefur mikið gengið á að undanförnu og hefur skipið verið notað til árása gegn Hútum í Jemen. AP/Darko Bandic

Áhöfn bandaríska flugmóðurskipsins USS Harry S. Truman hefur misst tvær herþotur í sjóinn á rúmri viku. F/A-18 Super Hornet orrustuþota féll í Rauðahafið í gær, strax eftir lendingu en tveir sem voru um borð í þotunni þurftu að skjóta sér úr henni og var þeim bjargað úr sjónum.

Í frétt CNN segir að enn sé óljóst hvað gerðist en talið sé að bilun í búnaði sem á að grípa orrustuþotur þegar þeim er lent á flugmóðurskipum hafi bilað.

Flugmaðurinn og vopnasérfræðingurinn um borð í þotunni enduðu í Rauða hafinu, eins og þotan, en þeim var bjargað með þyrlu og sluppu með lítil meiðsl.

Skömmu áður höfðu Hútar skotið að flugmóðurskipinu, þrátt fyrir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafi nokkrum klukkustundum áður lýst því yfir að Bandaríkin hefðu gert samkomulag við Húta í Jemen. Samkvæmt Trump ætla Hútar að hætta árásum á skip á Rauðahafi og í staðinn ætla Bandaríkjamenn að hætta loftárásum sínum á Húta.

Fyrir rúmri viku féll önnur Super Hornet orrustuþota í sjóinn þegar Hútar skutu að flugmóðurskipinu og skipinu var beygt hratt til að komast undan. Þotur af þessari gerð kosta rúmar sextíu milljónir dala, sem samsvarar um 7,8 milljörðum króna.

Í desember var svo enn ein Hornet þotan skotin niður fyrir mistök af öðru bandarísku herskipi og í febrúar lenti flugmóðurskipið í árekstri við kaupskip nálægt Egyptalandi. Engan hefur sakað alvarlega í þessum atvikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×