Íslenski boltinn

Fjögur lið á toppnum með fjögur stig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigfús Fannar Gunnarsson og Þórsarar voru í stuði í Breiðholtinu í kvöld.
Sigfús Fannar Gunnarsson og Þórsarar voru í stuði í Breiðholtinu í kvöld. @thor_fotbolti

Þór Akureyri, Fylkir og Þróttur unnu öll leiki sína í Lengjudeild karla í fótbolta í kvöld en jafntefli varð hjá HK og ÍR í Kórnum.

Þróttarar unnu 1-0 útisigur á Keflavík þar sem Liam Daði Jeffs skoraði sigurmarkið sex mínútum fyrir leikslok. Keflavíkurliðið var manni færri allan seinni hálfleikinn eftir að Nacho Heras fékk tvö gul spjöld með stuttu millibili.

Benedikt Daríus Garðarsson og Pablo Aguilera Simon tryggðu Fylkismönnum 2-0 sigur á Selfossi í Árbænum.

Sigfús Fannar Gunnarsson skoraði tvennu fyrir Þórsara í 4-1 útisigri á Leikni Reykjavík. Atli Þór Sindrason skoraði fyrsta mark Þórsliðsins í leiknum strax á sjöundu mínútu og eftir tuttugu mínútur var staðan orðin 3-0.  

Vilhelm Ottó Biering Ottósson var líka á skotskónum samkvæmt miðlum Þórsara en dómarar leiksins skráðu mark hans á Sigfús. Djorde Vladisavljevic minnkaði muninn fyrir Leikni.

Dagur Orri Garðarsson tryggði HK 1-1 jafntefli á móti ÍR með jöfnunarmarki átta mínútum fyrir leikslok. Marc Mcausland kom ÍR yfir í fyrri hálfleiknum.

Eftir leiki kvöldsins eru fjögur lið á toppnum með fjögur stig en það eru Þór Akureyri, Fylkir, Þróttur og ÍR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×