Erlent

Fundu mögu­lega eitt af 67 fórnar­lömbum hálfri öld síðar

Samúel Karl Ólason skrifar
Randy Kraft, eða „skorkortsmorðinginn“ og Larry Eugene Parks, sem Kraft er grunaður um að hafa myrt árið 1980.
Randy Kraft, eða „skorkortsmorðinginn“ og Larry Eugene Parks, sem Kraft er grunaður um að hafa myrt árið 1980. AP og Ríkislögregla Oregon

Loks hefur tekist að bera kennsl á lík manns sem fannst í vegarkanti í Oregon fyrir tæpum 45 árum. Talið er að maðurinn hafi verið fórnarlamb alræmds raðmorðingja frá Kaliforníu, sem gekk undir nafninu „skorkorts morðinginn“.

Larry Eugene Parks var þrítugur þegar hann hvarf árið 1980 en ríkislögregla Oregon telur nú að hann hafi orðið fórnarlamb Randy Kraft, áðurnefnds raðmorðingja. Park var uppgjafahermaður í Víetnam en fjölskylda hans hafði misst samband við hann ári áður en hann hvarf. Hann sást síðast í Flórída, á hinum enda Bandaríkjanna.

AP fréttaveitan hefur eftir talsmanni lögreglunnar að verið sé að skoða vísbendingar sem bendi til aðkomu raðmorðingjans og lögregluþjónar séu borubrattir með að svo muni reynast.

Kraft var dæmdur árið 1989 fyrir að myrða sextán menn yfir áratug í Kaliforníu. Sex árum áður, árið 1983, hafði Kraft verið stöðvaður af lögregluþjóni sem fannst hann aka ógætilega. Lík landgönguliða sem Kraft hafði kyrkt fannst í skottinu en í bílnum fannst einnig dulkóðaður listi sem talinn er sýna 67 fórnarlömb hans í Kaliforníu, Oregon og í Michigan.

Líkamspartar einhverra fórnarlamba hans fundust í frysti Krafts.

Hann var dæmdur til dauða en situr enn í fangelsi og hefur alltaf þvertekið fyrir að hafa drepið nokkurn mann.

Rannsóknarlögreglumaður frá Kaliforníu hafði í fyrra samband við lögregluna í Oregon og bauð fram aðstoð sína við að bera kennsl á líkið sem fannst 1980 með nýrri tækni. Líkamssýni voru svo borin saman við fjölskyldumeðlimi Parks og tókst þannig að bera kennsl á hann.

Árið 2023 tókst lögreglu að bera kennsl á lík tánings sem talið er að Kraft hafi myrt með sömu tækni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×