Leikarinn, sem er orðinn 76 ára gamall var ekki viðstaddur dómsuppkvaðninguna.
Depardieu hafnaði ásökunum og sakaði konurnar tvær um að ljúga upp á sig. Hann sagðist fyrir rétti viðurkenna að hafa notað óheflað orðbragð á stundum en sagðist saklaus af kynferðislegri áreitni.
Konurnar höfðu hinsvegar aðra sögu að segja og var hún studd vitnum. Lögmenn kvennanna lýstu leikaranum sem rándýri sem hafi nýtt sér stöðu sína í kvikmyndaheiminum til þess að fá sínu fram.
Fimmtíu og fjögurra ára gömul kona sem starfaði við leikmyndagerð segir að leikarinn hafi sest á hana og klipið hana í kynfærin um leið og hann jós yfir hana ókvæðisorðum. Að lokum var leikarinn fjarlægður af konunni með valdi af samstarfsmönnum þeirra á setti.
Hin konan starfaði sem aðstoðarleikstjóri myndarinnar og var Depardieu sakfelldur fyrir að grípa í kynfæri hennar oftar en einu sinni á meðan á tökum stóð.