Innlent

Um­fangs­meiri bankasala og á­fengi á íþróttaviðburðum

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Sindri Sindrason les kvöldfréttir á Stöð 2 í kvöld.
Sindri Sindrason les kvöldfréttir á Stöð 2 í kvöld. Vilhelm

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að stækka útboð almennra hluta í Íslandsbanka og stendur nú til að selja allan eignarhlut ríkisins í yfirstandandi útboði. Við fáum ritstjóra Innherja til að varpa ljósi á þessar nýjustu vendingar.

Úkraínuforseti sendi forseta Rússlands skýr skilaboð með því að hafna boði um að ganga til viðræðna í eigin persónu. Rússar hafa sagt þann fyrrnefnda aumkunarverðan og kröfur hans fáránlegar. Við rýnum í stöðuna í Úkraínu í kvöldfréttum.

Líkja má aðstæðum sem skapast hafa í kringum áfengissölu á íþróttaviðburðum við villta vestrið að mati stjórna íþróttabandalaga Reykjavíkur og Reykjanesbæjar sem kalla eftir skýrari reglum. Málið verður rætt á íþróttaþingi og Lillý Valgerður fréttamaður okkar verður í beinni útsendingu frá Kópavogsvelli.

Þá segjum við frá heimsókn hinnar bandarísku Fritzi Horstman til landsins en hún er sérfræðingur í áfallamiðaðri nálgun innan fangelsiskerfa. Hún segir Ísland hafa alla burði til að verða fyrirmyndarríki í fangelsismálum.

Þá verðum við í beinni útsendingu frá Eurovision stemningunni í Basel og ræðum við okkar mann Bjarka Sigurðsson, eða Basel-Bjarka eins og hann hefur viljað láta kalla sig. Svo förum við úr beinni útsendingu í Sviss yfir til Selfoss þar sem Magnús Hlynur ætlar að gefa okkur sunnlenska sumarstemningu beint í æð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×