Fótbolti

Á­horf­andi hljóp inn á og réðist á fyrr­verandi leik­mann Vals

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sebastian Hedlund í leik með Val 2022.
Sebastian Hedlund í leik með Val 2022. vísir/hulda margrét

Sebastian Hedlund, fyrrverandi leikmaður Vals og núverandi leikmaður Öster, varð fyrir miður skemmtilegri lífsreynslu í gær. Áhorfandi hljóp þá inn á völlinn og réðist á hann. 

Gautaborg tók á móti Öster í sænsku úrvalsdeildinni í gær. Eftir rúman klukkutíma, skömmu eftir að Öster komst yfir, 0-1, brutust út ólæti í stúkunni á Gamla Ullevi.

Einn áhorfandi gekk svo langt að hlaupa inn á völinn og að Hedlund. Miðvörðurinn áttaði sig á hvað var að gerast á síðustu stundu, beygði sig og slapp því við högg frá áhorfandanum æsta eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.

Leikurinn var stöðvaður í dágóðan tíma og hófst svo á ný. Öster hrósaði sigri, 0-1, og vann þar með sinn fyrsta útisigur á Gautaborg síðan 1992. Kolbeinn Þórðarson, leikmaður Gautaborgar, var rekinn af velli á 77. mínútu.

„Ég sá að höndin er fyrir ofan mig og ég hafði tíma til að beygja mig. Ég fann fyrir hönd hans á höfðinu. Hann var ekki allsgáður svo ég veit ekki hvort hann hitti,“ sagði Hedlund sem hefði viljað að leikurinn hefði verið stöðvaður fyrir fullt og allt.

„Ef hann hefði hitt mig hefði leikurinn verið stöðvaður? Þetta er sama aðgerð. Börnin mín sitja heima og horfa á þetta í sjónvarpinu. Þetta er ekki gaman.“

Hedlund lék með Val á árunum 2018-22 og varð tvisvar sinnum Íslandsmeistari með liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×