Eins og undanfarin ár býður Úrval Útsýn upp á fjölda skemmtilegra og spennandi ferða til Ítalíu þar sem hægt er að velja milli borgarferða, náttúruperlna og spennandi golfvalla.
Allar ferðir til Ítalíu eru í beinu flugi með ítalska flugfélaginu Neos sem eykur enn frekar á stórkostlega ítalska upplifun.
Lítum á nokkrar skemmtilegar ferðir til Ítalíu í sumar og í haust.

Það verður enginn svikinn af heimsókn til Veróna og Gardavatns
Það er ekki að ástæðulausu að Veróna er af mörgum talin fegursta borg Ítalíu og er þó samkeppnin mikil. Borgin er m.a. þekkt fyrir ekta ítalska menningu, fallegar kirkjur og byggingar, fróðleg og skemmtileg söfn, dæmigerðar þröngar götur, einstaka sögu, lífleg torg og svo auðvitað aragrúa veitinga- og kaffihúsa. Sannkölluð veisla fyrir öll skynfærin.
Úrval Útsýn býður upp á þriggja daga helgarferðir til Veróna á bilinu 6. júní til 21. september og eru nokkrir fallegir gististaðir í boði. Flugtíminn er líka mjög heppilegur en flogið er frá Keflavíkurflugvelli kl. 8.30 á föstudagsmorgni og flogið heim frá Veróna kl. 18 á sunnudegi.
Veróna, sem er sögusvið harmleiksins Rómeó og Júlíu eftir William Shakespeare, hefur upp á fjölmargt áhugavert til að skoða. Þar má m.a. nefna rómverska leikhúsið Arena di Verona sem er hringleikahús frá 1. öld og eitt af best varðveittu rómversku hringleikahúsum í heimi. Þar eru haldnar óperusýningar og tónleikar allt árið um kring.

Gamli bærinn í Veróna er á heimsminjaskrá UNESCO og býður upp á mörg falleg torg eins og Piazza delle Erbe og Piazza Bra, auk þess sem gamlar kirkjur og kastalar blasa við hvar sem gengið er. Einn kastalinn, Castelvecchio, er frá 14. öld og hýsir í dag listasafn með verkum frá miðöldum og endurreisnartímanum. Brúin Ponte Scaligero tengist kastalanum er vel þess virði að skoða enda falleg smíði.
Borgin býður upp á fjölmarga úrvals veitingastaði í öllum verðflokkum enda ríkir mikil matar- og vínmenning í Verona. Vínræktarsvæðið Valpolicella liggur við borgina þar sem framleidd eru vönduð rauðvín. Það má því segja að ekki sé hægt að sofna svangur eða þyrstur í Veróna.

Náttúruperlan Gardavatn er í 35 km. fjarlægð frá Veróna en vatnið og umhverfi þess er heimsfrægt fyrir mikla náttúrufegurð, há og falleg fjöll sem umlykja vatnið og úrvals vínframleiðslu. Svæðið býður upp á fjölmarga útivistamöguleika, svo sem gönguferðir, fjallgöngur og hjólaferðir.

Fjölskyldu- og skemmtigarðurinn Gardalandia liggur við vatnið en þar ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Við vatnið má einnig finna fjölmarga fallega smábæi, hafnir og fallegar strendur. Við mælum sérstaklega með heimsóknum til bæjanna Riva del Garda, Malcesine, Bardolino og Sirmione.

Óspillt náttúra og raunverulega ítölsk upplifun
Calabria héraðið er staðsett í suðurhluta Ítalíu og er þekkt fyrir töfrandi landslag með hrikalegum fjöllum, hlíðum og yfir 800 kílómetra af strandlengju með kristaltæru vatni. Héraðið nýtur Miðjarðarhafsloftslags með heitum, þurrum sumrum og mildum vetrum.
Úrval Útsýn býður upp á 11 daga ferð til Calabria dagana 6.-16. október. Hægt er að velja milli þriggja glæsilegra gististaða með hálfu fæði og er fararstjórn í höndum Kolfinnu Baldvinsdóttur.
Á sama tíma er boðið upp á ferð til Calabria í samvinnu við Úrvalsfólk, sem er klúbbur innan Úrvals Útsýnar ætlaður fólki 60 ára og eldri. Sú ferð býður upp á gistingu á Scoglio della Galea Resort and Spa sem er 4 stjörnu hótel með fallegu útsýni yfir Miðjarðarhafið og flóana í Capo Vaticano.

Calabria er fræg fyrir þjóðsögur, tónlist og hefðir en ekki síður fyrir matreiðsluhefðir sínar, þar á meðal kryddaða rétti úr chili pipar ræktuðum á svæðinu, ólífuolíu, ferskt sjávarfang og osta. Vín frá Calabria eru einnig mikilvægur hluti af menningu svæðisins.
Höfuðstaður héraðsins er Catanzaro en einungis lítið sund skilur héraðið að frá Sikiley. Á svæðinu má m.a. finna þjóðgarðana Aspromonte og Sila þar sem hægt er að fara í gönguferðir og skoða ósnortna náttúru og fjölbreytt dýralíf.
Í Calabria er m.a. hægt að heimsækja fornar rústir eins og rómverska leikhúsið í Cosenza, gríska leikhúsið í Locri og fornu borgina Kaulon. Miðaldakastalar og sjarmerandi þorp eru einnig á svæðinu, sem gefur ferðamönnum tækifæri á að kafa djúpt í menningu og sögu svæðisins.

Sikiley býður upp á stórkostlega möguleika
Það er sannarlega draumi líkast að heimsækja Sikiley sem oft er nefnd drottning Miðjarðarhafsins, enda má segja að eyjan sé allt í senn; paradís matargerðar, menningar og loftslags.
Úrval Útsýn býður upp á ellefu daga ferð til Sikileyjar dagana 20.-30. október þar sem gist er á tveimur fjögurra stjörnu hótelum með hálfu fæði. Fararstjórn er í höndum Margrétar Laxness.

Besti tíminn til að heimsækja Sikiley er á haustin sem er einmitt árstími þessarar spennandi ferðar. Landslagið á Sikiley á þessum árstíma er ægifagurt með sínum ávölum fjöllum, hásléttum og fallegum dölum. Virka eldfjallið Etna er svo aldrei langt undan.
Margir líkja Sikiley við stórt fornminjasafn enda er menning eyjaskeggja suðupottur með hráefnum úr ólíkum áttum, m.a. blöndu af evrópskri- og Miðjarðarhafsmenningu með leifum frá fönikískum, grískum, rómverskum, arabískum, býsönskum og normönskum tímabilum sögunnar.

Sömu daga, 20.-30. október, býður Úrval Útsýn upp á einstaka golfferð til Sikileyjar. Um er að ræða golfvöllinn Il Picciolo sem er staðsettur við rætur eldfjallsins Etna. Völlurinn hefur samlagast náttúrunni á einstakan hátt og hentar bæði byrjendum og lengra komnum kylfingum.
Il Picciolo er ekki aðeins golfvöllur því hann er hluti af einstökum heimi þar sem kyrrð, fegurð og íþrótt sameinast. Öll þjónusta er í hæsta gæðaflokki, hvort sem um er að ræða æfingasvæði eða aðstöðu fyrir kylfinga.
Gist er á Il Picciolo Etna Golf Resort sem er 4 stjörnu lúxushótel staðsett í kyrrlátu og gróðursælu umhverfi. Fararstjórn er í höndum Júlíusar Hallgrímssonar.
Kynntu þér betur alla þessa skemmtilegu og áhugaverðu áfangastaði á vef Úrvals Útsýnar.