Íslenski boltinn

Sjáðu mörkin: Berg­lind í hefndar­hug með fleiri en allt Valsliðið í sumar

Sindri Sverrisson skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir sló á létta strengi eftir að hafa skorað gegn sínu gamla félagi í kvöld, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir sló á létta strengi eftir að hafa skorað gegn sínu gamla félagi í kvöld, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Stöð 2 Sport

Breiðablik rúllaði yfir Val í stórleik kvöldsins í Bestu deild kvenna í fótbolta, 4-0. Berglind Björg Þorvaldsdóttir sussaði á fólk og setti tvö mörk gegn félaginu sem vildi ekki halda henni. Mörk kvöldins má nú sjá á Vísi.

Mörkin fjögur má sjá í spilaranum hér að neðan en það var Agla María Albertsdóttir, nýmætt aftur í íslenska landsliðshópinn, sem skoraði fyrsta markið strax á fyrstu mínútu. Berglind bætti við tveimur mörkum fyrir hálfleik og fjórða markið skoraði Karitas Tómasdóttir svo með bakinu í seinni hálfleik.

Klippa: Mörk Breiðabliks gegn Val

Þó að hún hafi nokkuð spör á yfirlýsingarnar í viðtali í Sportpakkanum í gærkvöld þá virtist alveg ljóst að Berglind væri í hefndarhug gegn sínu gamla félagi í kvöld.

Hún fagnaði fyrra marki sínu með því að leggja fingur yfir varir sínar, mögulega til að sussa á einhverja sem efuðust um að þessi mikli markahrókur hefði enn svo mikið fram að færa.

Blikar hafa verið magnaðir í upphafi tímabils og skorað 28 mörk í sex leikjum en Berglind hefur skorað fjórðung þeirra, eða heil sjö mörk, og er langmarkahæst í deildinni það sem af er, á sínu fyrsta heila tímabili eftir að hafa snúið heim úr atvinnumennsku og úr barneignaorlofi með Val í fyrra.

Berglind hefur raunar skorað einu marki meira en allt Valsliðið til samans því Valskonur hafa aðeins skorað sex mörk í fyrstu sex leikjunum og fengið á sig átta. Þær hafa auk þess tapað þremur deildarleikjum í röð núna, í fyrsta sinn frá árinu 2015 þegar liðið endaði aðeins í 7. sæti.

Berglind skoraði fjögur mörk í tíu leikjum fyrir Val í fyrra, eftir að hafa eignast strák um veturinn. Hún gerði tólf mörk í níu leikjum sumarið 2020, áður en hún fór í atvinnumennsku, og hefur mest skorað nítján mörk á einni leiktíð í efstu deild, þegar hún hlaut gullskóinn árið 2018. Alls hefur hún núna skorað 148 mörk í 209 leikjum í efstu deild á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×