Það er búin að vera mikil stemning á Hótel Örk í Hveragerði frá því á fimmtudaginn til síðdegis í dag þegar bútasaumur er annars vegar. Ástæðan er sú að um fimmtíu konur hafa setið við saumavélarnar þessa daga þar, sem þær hafa unnið fjölbreytt verkefni, auk þess að spjalla og hafa gaman saman. Jóhanna Viborg er sú sem stjórnaði bútasaumshittingnum en hún er með verslunina Bóthildi í Reykjavík þar sem hún selur allt til bútasaums.
„Já, hér er búið að sauma og sauma, bútasaumskonur hist og hér af landinu, sem komu og flestar þeirra ef ekki allar eru kúnnar mínir úr Bóthildi,” segir Jóhanna.
En einhver sagði mér að þú værir að fara að hætta með þetta, er það rétt eða rangt?
„Ég ætla að hætta um áramótin með búðina og ætlaði að hafa þetta síðustu helgina en konurnar eru búnar að snúa illilega upp á hendina á mér þannig að ég ætla að reyna aftur næsta ár,” segir Jóhanna.
Og konurnar segja bútasaum dásamlegan.
„Þetta er svo gott fyrir sálina og svo er maður náttúrulega alltaf að skapa. En þetta er bara hugarró algjör og góður félagsskapur, búa til falleg efni og læra, maður lærir mikið,” segir Jóhanna Björg Aðalsteinsdóttir, bútasaumskona frá Ísafirði.

„Já, þetta er rosalega gaman, þetta er það skemmtilegasta, sem maður gerir. Mjög skemmtilegt áhugamál og gefandi,” segir Sigrún Sólmundardóttir, bútasaumskona frá Bergsholti í Melasveit.

Og Brynja Kerjúlf, sem á eitt ár í að verða 90 ára lét sig ekki vanta á bútasaumsdagana í Hveragerði.
„Það er hlegið og talað og saumað allan daginn, alveg dásamlegt. Já, mér er sagt að ég sé aldursforsetinn”, segir Brynja hlægjandi.

Og Kristín Björg Erlendsdóttir, bútasaumskona búsett í Garðabæ var með ótrúlega falleg bútasaumsteppi, sem hún gerði.
„Bútasaumur er rosalega skemmtilegur og það er alltaf gaman að sjá hvað hinar konurnar eru að gera. Ég gef yfirleitt allt, sem ég er að sauma, á minnst af þessu sjálf,“ segir Kristín.

En hvar er íslenska karlmaðurinn, ég sé engan karl hérna?
„Nei, þeir eru einhvers staðar í felum, þeir koma ekki til okkar,” segir Kristín hlæjandi.