Íslenski boltinn

„Í dag unnum við þetta eins og fjöl­skylda“

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Byström þakkar æðri máttarvöldum.
Byström þakkar æðri máttarvöldum. Vísir/Guðmundur Þórlaugarson

Jakob Byström átti drauma frumraun í Bestu deildinni í kvöld. Skoraði hann tvö mörk fyrir Fram í 2-3 sigri á KR í 8. umferð deildarinnar. 

Jakob Byström er tvítugur svíi sem á þó íslenska ömmu frá Dalvík. Sú tenging kom Jakobi til Íslands. Var þetta hans fyrsti leikur fyrir Fram í Bestu deildinni, en hann hefur verið að glíma við meiðsli.

„Þetta var frábært, sérstaklega eftir löng meiðsli. Þetta hefur verið löng bið, en ég nýtti mér það sem hvatningu,“ sagði Jakob Byström.

Hann segist hafa vonast eftir því að skora í dag í undirbúningi fyrir leikinn.

„Ég vonaðist eftir því og er mjög ánægður að geta hjálpað liðinu að ná í þennan sigur.“

Jakob Byström segir leikplanið hafa gengið eftir í dag.

„Við komum hingað með mikla orku. Við vissum að þetta yrði erfiður slagur og vissum að við þyrftum að hjálpa hvor öðrum. Í dag unnum við þetta eins og fjölskylda, við vorum harðduglegir.“

Mikil orrahríð var að marki Fram undir lok leiksins og viðurkennir Jakob Byström að hann hafi verið stressaður á þeim tímapunkti.

„Ég var dálítið stressaður þarna undir lokin. Þeir áttu nokkur góð færi en markvörðurinn okkar átti nokkrar stórar vörslur og liðið hélt áfram að berjast.“

Jakob Byström er ánægður í Úlfarsárdalnum.

„Þeir hafa tekið vel á móti mér, leikmenn og þjálfarar. Þetta hefur verið gott.“

Aðspurður hvort eiga mætti von á fleiri svona leikjum frá honum í sumar þá var svarið einfalt.

„Ég mun halda þessu áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×