Árið 2023 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Eimskip og Samskip hefðu haft ólöglegt samráð á árunum 2008 til 2013. Ráðgjafafyrirtækið Analytica vann frummat fyrir Félag atvinnurekenda, Neytendasamtökin og VR. Samkvæmt því hafði ólöglegt samráð Eimskipa og Samskipa kostað íslenskt samfélag tæplega 62 milljarða króna á fyrrnefndu tímabili.
Að mati Analytica hafði samráðið leitt til þess að vísitala neysluverðs hækkaði um 0,7 prósent umfram það sem gera hefði mátt ráð fyrir ef gjaldskrár skipafélaganna hefðu haldist óbreyttar að raungildi. Kostnaðarauki fyrirtækja í útflutningi var talinn hafa numið um 12,7 milljörðum, viðskiptavina í flutningsmiðlun um 3,7 milljörðun og viðskiptavina í landflutningum um 1,9 milljörðum. Þessar tölur eru á verðlagi annars ársfjórðungs ársins 2023.
Í kjölfar þess að þetta frummat var birt stefndi Alcoa Fjarðaál Eimskipum og Samskipum og krafði félögin um tæplega 3,1 milljarð króna í skaðabætur.
„Fjárkrafa Alcoa byggði alfarið á minnisblaði ráðgjafafyrirtækisins Analytica ehf., sem innihélt svonefnt frummat, frá 21. febrúar 2024. Ráðgjafafyrirtækið Hagrannsóknir sf., sem fræðimennirnir dr. Birgir Þór Runólfsson dósent og deildarforseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands og dr. Ragnar Árnason prófessor emeritus standa að, yfirfór umrætt minnisblað fyrir Eimskip og vann skýrslu um efni þess. Niðurstaða Hagrannsókna sf. var afgerandi um að vankantar í minnisblaði Analytica ehf. væru svo alvarlegir og ályktanir svo rangar að minnisblaðið væri í heild ónothæft sem mat á meintu tjóni,“ segir í tilkynningu frá Eimskipum.
„Það var og er mat félagsins að ekkert tilefni hafi verið til málsóknar stefnanda, enda eru skilyrði skaðabótaskyldu ekki uppfyllt. Þá er ætlað fjártjón stefnanda og þar með fjárkrafan engum haldbærum gögnum studd,“ segir þá í tilkynningunni.
Eimskip gerðu sátt við Samkeppniseftirlitið árið 2021 vegna samráðsins meinta og greiddu Eimskip 1,5 milljarðs króna sekt vegna sáttarinnar. Samskip var upphaflega sektað um 4,2 milljarða króna en eftir að hafa áfrýjað málinu staðfesti áfrýjunarnefndin brot gegn samkeppnislögum og gerði Samskipum að greiða 2,3 milljarða króna sekt ásamt 100 milljóna króna sekt fyrr brot gegn upplýsingaskyldu.