Vestri var 0-1 undir í hálfleik gegn Stjörnunni en sneri dæminu sér í vil í seinni hálfleik og vann 3-1 sigur.
Guðmundur Baldvin Nökkvason kom Stjörnumönnum yfir strax á 6. mínútu og þeir leiddu í hálfleik, 0-1. Gunnar Jónas Hauksson jafnaði fyrir Vestramenn í upphafi seinni hálfleiks og svo var komið að Daða Berg Jónssyni. Hann kom heimamönnum yfir á 74. mínútu og gulltryggði svo sigur þeirra mínútu fyrir leikslok.
Vestri er í 2. sæti deildarinnar með sextán stig en Stjarnan í því sjöunda með tíu stig.
Víkingur er með sautján stig á toppnum eftir 2-1 sigur á ÍA í Víkinni í gær. Stígur Diljan Þórðarson kom Víkingum yfir á 9. mínútu með sínu fyrsta deildarmarki fyrir félagið og Helgi Guðjónsson, sem lagði fyrsta markið upp, jók muninn svo í 2-0 á 34. mínútu.
Haukur Andri Haraldsson minnkaði muninn í 2-1 mínútu fyrir hálfleik en nær komust Skagamenn ekki. Þeir eru með sex stig á botni deildarinnar.
Valur vann öruggan 3-0 sigur á ÍBV á heimavelli. Öll mörkin komu á fimmtán mínútna kafla í fyrri hálfleik.
Jovan Mitrovic skoraði sjálfsmark á 28. mínútu og aðeins mínútum síðar skoraði Patrick Pedersen sitt sjöunda mark í sumar. Birkir Heimisson gerði svo þriðja mark Valsmanna á markamínútunni, þeirri 43.
Valur er með tólf stig í 4. sæti deildarinnar en ÍBV, sem hefur aðeins fengið eitt stig í síðustu fjórum leikjum, er í 9. sætinu með átta stig.
Aðeins eitt mark var skorað í leik KA og nýliða Aftureldingar á Akureyri. Það gerði Hallgrímur Mar Steingrímsson með frábæru skoti fyrir utan vítateig á 79. mínútu.
Með sigrinum komst KA upp í 10. sæti deildarinnar en liðið er með átta stig. Afturelding er í 8. sætinu með tíu stig.