Erlent

Telja van­rækslu hafa valdið mann­skæðu þyrlu­slysi í Finn­landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglubíll við vettvang þyrluslyssins mannskæða nærri Eura í Suðvestur-Finnlandi fyrr í þessum mánuði.
Lögreglubíll við vettvang þyrluslyssins mannskæða nærri Eura í Suðvestur-Finnlandi fyrr í þessum mánuði. Vísir/EPA

Finnska rannsóknarlögreglan rannsakar nú mannskætt þyrluslys sem varð fyrr í þessum mánuði sem manndráp af gáleysi. Fimm mannst fórust þegar tvær þyrlur rákust saman.

Ekki kemur fram í hverju gáleysið fólst í yfirlýsingu sem rannsóknarlögreglan gaf út í gær. Nú væru tvö möguleg lögbrot til rannsóknar í tengslum við slysið, annars vegar manndráp af gáleysi og hins vegar alvarleg ógn við umferðaröryggi, að því er segir í frétt finnska ríkisútvarpsins.

Þyrlurnar tvær rákust saman nærri Eura í suðvestanverðu Finnlandi 17. maí. Um borð voru fimm eistneskir flugáhugamenn sem voru á leiðinni frá Tallinn á flughátíð í bænum Kokemäki.

Finnsk og eistnesk yfirvöld vinna saman að rannsókn á slysinu. Flugritar þyrlanna eru sagðir hafa skemmst mikið í slysinu. Eistneskir fjölmiðlar segja að flugmenn þyrlanna hafi haft öll tilskilin leyfi og verið reyndir flugmenn.

Sjónarvottur sagði finnska ríkisútvarpinu á sínum tíma að hann hefði séð þyrlurnar fljúga nærri hvor annarri, Skyndilega hefði önnur þeirra tekið snarpa stefnubreytingu og rekist á hina. Önnur þyrlan hefði hrapað eins og steinn en hin snúist stjórnlaust niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×