Körfubolti

Daníel Guðni tekur við karlaliði Kefla­víkur

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Daníel hefur þjálfað bæði karla- og kvennalið Grindavíkur og Njarðvíkur. Nú tekur hann við sem aðalþjálfari karlaliðs Keflavíkur.
Daníel hefur þjálfað bæði karla- og kvennalið Grindavíkur og Njarðvíkur. Nú tekur hann við sem aðalþjálfari karlaliðs Keflavíkur. keflavík karfa

Daníel Guðni Guðmundsson hefur skrifað undir samning við körfuknattleiksdeild Keflavíkur og verður þjálfari karlaliðsins næstu tvö árin. 

„Daníel hefur verið viðloðandi þjálfun í meira en 20 ár þó ungur sé hann að árum og hefur víððtæka reynslu sem mun nýtast vel í starfi hér í Keflavík. Vinna er í fullum gangi í leikmannamálum og ekki hægt að útiloka að einhverjar fréttir berist í þeim málum innan skamms“ segir í tilkynningu Keflavíkur á Facebook.

Daníel er fæddur árið 1986 og hóf þjálfaraferilinn árið 2015 með kvennaliði Grindavíkur, sem hann stýrði í úrslitaleik bikarkeppninnar gegn Snæfelli og undanúrslit úrvalsdeildarinnar gegn Haukum.

Árið 2016 var hann ráðinn aðalþjálfari karlaliðs Njarðvíkur, náði ekki inn í úrslitakeppnina á sínu fyrsta tímabili, var síðan sópað burt af KR í fyrstu umferð á næsta tímabili, og lét af störfum í kjölfarið, árið 2018.

Daníel á hliðarlínunni í leik Grindavíkur og Fjölnis tímabilið 2019-20. vísir

Tímabilið eftir sinnti hann aðstoðarþjálfarastörfum hjá karla- og kvennaliðum Grindavíkur. Hann var síðan ráðinn aðalþjálfari Grindavíkur árið 2019, leiddi liðið í bikarúrslitaleik árið 2020, en látinn fara þegar fimm leikir voru eftir af tímabilinu 2022.

Daníel ræðir við Njarðvíkinga í leikhléi árið 2023. vísir

Þá gerðist hann aðstoðarþjálfari Njarðvíkur, sem spilaði undir stjórn Benedikts Guðmundssonar. Þeir létu báðir af störfum í fyrra, eftir að Njarðvík datt út í úrslitakeppninni 2024.

Daníel er menntaður íþróttasálfræðingur með meistaragráðu frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð og hefur undanfarin fjögur ár starfað hjá Sidekick Health í Kópavogi.

Fréttin hefur verið uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×