Fasteignamat fyrir árið 2026 var kynnt af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun í dag. Fasteignamat er í fyrsta sinn hærra en brunabótamat frá árinu 2007. Framkvæmdastjóri hjá HMS segir það merki um að kjörinn tími sé til að byggja.
Veitur leggja til að stórt svæði í Heiðmörk verði lokað af fyrir bílaumferð til að vernda vatnsból á svæðinu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem situr í stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur, verður í viðtali í beinni útsendingu vegna þessa.
Stærsti ótti sundkappans Ross Edgley varð að veruleika á þriðja degi á sundferð hans hringinn í kringum landið. Hlutar af tungu kappans fóru þá að falla út í morgunkornið. Og við kíkjum á eldri borgara sem stigu dans á diskóballi í Bíó paradís í dag.
Halldór Jón Sigurðsson þjálfari kvennaliðs Tindastóls í Bestu-deild kvenna segir stöðu félagsins grafalvarlega, þegar kemur að meistaraflokkum félagsins í knattspyrnu. Knattspyrnudeildin sé í raun stjórnlaus.
Í Íslandi í dag heimsækjum við Kvartmíluklúbbinn sem fagnar um þessar mundir fimmtíu ára afmæli.
Þetta og margt fleira í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan hálf sjö.