Frá þessu greinir Brynjar í hringrásarfærslu á Instagram í kvöld. Hann segir að einum heppnum umsækjanda, sem takist að heilla hann, fái að taka með honum lagið undir nafni ClubDub á þjóðhátíð. Fréttastofa hafði samband við Brynjar og hann segist lítið geta gefið upp að svo stöddu en að hann sé í viðræðum við ýmsa styrktaraðila. Hann lofar því að allt verði upp á tíu.
Þegar blaðamaður lagði fyrir hann hvort hann hefði borið þetta allt saman undir Aron Kristinn svaraði Brynjar á þann veg að Aron væri „bara að vinna í sínu.“ Fréttastofa hefur reynt að ná í Aron Kristinn en án árangurs.

„Þetta er alvöru. Ekki missa af,“ segir hann.
Hann segir nánari upplýsinga að vænta um hvenær opnað verði fyrir umsóknir.
Lætur að sér kveða á nýjum vettvangi
Í fyrradag greindi Aron Kristinn frá því að hann væri hættur í sveitinni á samfélagsmiðlum.
„Ég er hættur í ClubDub. Ást og friður,“ skrifaði hann.
Brynjar hefur verið fyrirferðameiri en áður undanfarið í þjóðfélagsumræðunni. Hann hefur látið til sín taka á vettvangi útlendingamála á nokkuð hispurslausan hátt. Hann var meðal ræðumanna á umdeildum mótmælum síðustu helgi þar sem hópur fólks kom saman og krafðist breytinga á stefnu stjórnvalda í hælisleitendamálum. Hann sagði meðal annars að múslimar sem kæmu hingað til lands væru „blóðsugur sem bera enga virðingu fyrir okkur, okkar siðum og menningu.“
Í ræðu sinni vísaði hann einnig til þekktra samsæriskenninga og þuldi upp kaflaheiti í Íslandssögunni á borð við Tyrkjaránið og vistarbandið. Hið síðarnefnda vakti athygli áheyrenda vegna þess að það tengist múslimum eða öðru aðfluttu fólki nákvæmlega ekki neitt.
Ólíkar áherslur
Ekki liggur fyrir hvort eitthvað af ofangreindu sé ástæða þess að Aron ákvað að hætta í sveitinni en Brynjar tjáði sig lítillega um málið í streymi sem hann stóð fyrir.
Þar sagði hann að þeir ættu enn gott samband en að eðli sveitarinnar hlyti að breytast í ljósi þess að Aron Kristinn er að verða faðir. Þar að auki hafi þeim greint á um hvort þeir sem tónlistarmenn ættu að láta til sín taka á vettvangi þjóðfélagsumræðu.