Hinn 22 ára gamli Alcaraz átti titil að verja á Opna franska, en útlitið var svart fyrir Spánverjann í úrslitaleiknum í kvöld.
Sinner vann fyrstu tvö settin, 6-4 og 7-6 eftir upphækun, og þurfti því aðeins að vinna eitt sett í viðbót til að tryggja sér titilinn.
Alcaraz gafst hins vegar ekki upp og vann þriðja settið 6-4. Hann var svo 5-3 undir í fjórða setti, en snéri því við og vann 7-6 eftir upphækkun.
Báðir höfðu þeir því unnið tvö sett og aðeins eitt sett eftir til að skera úr um sigurvegarann. Fimmta og síðasta settið fór einnig í upphækkun þar sem Alcaraz hafði betur, 7-6, og Spánverjinn fagnaði því titlinum annað árið í röð.
Alls léku þeir félagar í fimm klukkustundir og 29 mínútur, sem gerir þetta að lengsta úrslitaleik Opna franska risamótsins í tennis í sögunni.
Þetta var fimmti risatitill Alcaraz, en ásamt því að hafa unnið Ona franska í tvígang hefur hann tvisvar fagnað sigri á Wimbeldon og einu sinni á Opna bandaríska.