Samgöngur og fjarskipti lömuðust með gríðarlegum röskunum fyrir daglegt líf á bæði Spáni og í Portúgal 28. apríl. Raforkukerfið hrundi þegar um fimmtán gígavött raforku duttu skyndilega út, um sextíu prósent af heildarframleiðslunni. Rafmagn komst ekki aftur á fyrr en snemma daginn eftir.
Í skýrslu sem spænsk stjórnvöld létu vinna og var birt í gær kemur fram að tæknilega og skipulagsleg mistök hjá opinbera landsnetinu Red Eléctrica hafi leitt til þess að flutningskerfið var ekki í stakk búið að takast á við skyndilega spennuaukningu. Fyrirtækið hefði misreiknað hversu mikla orkuframleiðslu þyrfti þann daginn.
Ábyrgðin lægi einnig hjá einkareknum orkuverum sem gerðu ekki sitt í að jafna út sveifluna. Spennuaukningin sló út flutningskerfinu á Suður-Spáni fyrst en síðan hafi það haft keðjuverkunaráhrif í för með sér sem enduðu með því að allur Íberíuskaginn var án rafmagns.
Á meðal mistaka Red Eléctrica sagði Sara Aagesen, umskiptaráðherra Spánar, að hafa ekki fundið staðgengil fyrir orkuver sem átti að jafna út sveiflur í raforkukerfinu. Þá hefði verið slökkt á einkareknum orkuverum þegar sveiflurnar hófust sem hefðu getað nýst til þess að jafna þær út.
Hafna því að hafa gert mistök
Red Eléctrica vísar niðurstöðum úttektarinnar á bug. Concha Sánchez, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að innanhússrannsókn þess hafi leitt í ljós frávik í því þegar orkuver voru aftengd kerfinu jafnvel þótt að spenna á því væri innan löglegra marka. Þá hefði eftirspurn eftir orku frá samgöngukerfinu aukist óvanalega.
Sánchez sagði að gert hefði verið ráð fyrir nægilegu svigrúmi til þess að jafna út sveiflur í kerfinu. Hefðu orkuverin staðið sína plikt hefði rafmagnsleysið aldrei orðið. Fyrirtækið ætlar að birta sína eigin úttekt á því á næstunni, að því er segir í frétt Reuters.
Engar vísbendingar fundust um að tölvuárás hefði verið gerð á raforkukerfi landanna tveggja.