Forstjóri Hafrannsóknarstofnunar segir mikilvægt að þróa botnvörpuveiðar til að minnka umhverfisáhrif þeirra. Við ræðum við hann og einnig mann sem hefur myndað veiðarnar og segir þær valda allt of miklu tjóni.
Þá kynnum við okkur áhugaverða könnun sem sýnir að aðeins þriðjungur hægri manna upplifir fréttaflutning Ríkisútvarpsins sem óháðan. Við ræðum við sérfræðing hjá Fjölmiðlanefnd sem segir merki um að Íslendingar séu í auknum mæli farnir að velja sér fjölmiðla eftir pólitískum skoðunum.
Auk þess kynnum við okkur sorpflokkun í Reykjavík en ekki er hægt að endurvinna rusl úr almenningstunnum þar sem flokkunin er ekki nógu góð. Við kíkjum líka á dorgveiðikeppni, verðum í beinni frá samstöðufundi mótorhjólafólks og í beinni frá Hljómskálagarðinum þar sem efnt verður til Kvennavöku í tilefni kvenréttindadagsins.
Í Sportpakkanum verður rætt við formann KSÍ um undirbúninginn fyrir EM í Sviss og í Íslandi í dag hittir Vala Matt Jónu Ottusen sem safnar nú fyrir meðferð á Spáni þar sem hún vonast til að geta endurheimt hreyfingu í fingrum.
Þetta og margt fleira í opinni dagskrá á samtengdum rásum Sýnar, Vísis og Bylgjunnar klukkan 18:30.