Andrea hljóp á 16:18 mínútum og bætti þar með metið sitt frá því í Víðavangshlaupi ÍR árið 2023 um níu sekúndur.
Alls tóku rúmlega 2.600 hlauparar frá 67 löndum þátt í hlaupinu sem hófst við Engjaveg og endaði við þvottalaugarnar í Laugardalnum.
Keppt var í þremur vegalengdum; hálfmaraþoni, tíu kílómetrum og fimm kílómetrum, í mikilli veðurblíðu seint um kvöldið.
Arnar Pétursson var fljótastur allra karla í hálfmaraþoninu en hann hljóp á tímanum 01:11:54. Í kvennaflokki var Idelma Lizeth Delgado frá El Salvador fyrst í mark á tímanum 01:23:18.
Í tíu kílómetra hlaupinu kom Íris Anna Skúladóttir fyrst í mark í kvennaflokki á tímanum 38:25 en Stefán Kári Smárason kom fyrstur í mark í karlaflokki á tímanum 33:08.
Kristinn Þór Kristinsson var svo allra karla sneggstur í fimm kílómetra hlaupinu á tímanum 16:05 en Andrea fljótust kvenna eins og fyrr segir, á 16:18.