Enginn þeirra sem komst inn er Íslendingur og það þarf að fara meira en einn og hálfan áratug aftur í tímann til að finna síðustu heimsleika án Íslendinga.
Anníe Mist Þórisdóttir tók fyrst Íslendinga þátt í heimsleikunum árið 2009 og síðan þá hefur hún eða annar Íslendingur alltaf verið með.
Björgvin Karl Guðmundsson var eini Íslendingurinn á heimsleikunum í fyrra en þá endaði langur tími íslensku dætranna á leikunum.
Björgvin var þá með á elleftu heimsleikunum í röð en honum tókst að tryggja sig inn á leikana í ár.
Annað árið í röð er heldur engin íslensk kona á heimsleikunum.
Bæði Bergrós Björnsdóttir og Sara Sigmundsdóttir voru nálægt því að tryggja sig inn á heimsleikana eftir góða frammistöðu í undanúrslitum Evrópu og í undanúrslitum Afríku.
Þær þurftu samt báðar að sætta sig við það að missa af heimsleikunum í þetta skiptið. Bergrós hefur keppt í unglingaflokki heimsleikanna síðustu ár en er nú í fyrsta sinn í fullorðinsflokki.
Hún kemst vonandi inn á heimsleikana í framtíðinni en það hjálpar hvorki henni né öðrum að CrossFit samtökin hafa fækkað keppendum undanfarin ár.
Sara er ekki hætt að reyna og nær vonandi að upplifa drauminn á ný en við vitum ekki framtíðarplön Anníe Mistar Þórisdóttur og þá er Katrín Tanja Davíðsdóttir hætt að keppa í CrossFit.
Það eru kynslóðarskipti í gangi hjá okkar besta fólki og á sama tíma varð líka enn erfiðara að komast inn.
Keppendum var fækkað úr fjörutíu í þrjátíu milli ára en í staðinn verður enginn niðurskurður á mótinu sjálfu.
Miklar breytingar eru á keppendum milli ára og margar stjörnur tóku ekki þátt í undankeppninni eða komust ekki áfram. Af þeim áttatíu sem komust á heimsleikana í fyrra er aðeins fimmtán karla og fimmtán konur á heimsleikunum annað árið í röð.