Jrue Holiday er á leiðinni til Portland Trail Blazers í skiptinum fyrir Anfernee Simons og tvo valrétti í annarri umferð nýliðavalsins.
Portland sóttist hart eftir að ná í Holiday. Hann kom mjög stutt við hjá félaginu í Damian Lillard skiptunum við Milwaukee Bucks árið 2023 en fór síðan strax áfram til Boston. Núna mun hann spila með liðinu.
Simons er á síðasta árinu af samningi sínum en Holiday á inni 72 milljónir dollara fyrir næstu tvö tímabil.
Bobby Marks, launaþakssérfræðingur ESPN, segir að Boston Celtics spari sér um fjörutíu milljónir dollara í lúxusskatt með því að losna við samning Holiday. Það eru 4,9 milljarðar í íslenskum krónum.
Holiday var í varnarliði ársins á 2023-24 tímabilinu þegar Boston fór alla leið og varð NBA meistari. Hann hitti þá úr tæpum 43 prósent þriggja stiga skota sinna.
Holiday, er gríðarlega reynslumikill enda næsta haust að byrja sitt sautjánda tímabil í NBA. Hann kemur því með mikla reynslu inn í ungt og efnilegt lið Portland Trail Blazers.
Trail Blazers kláraði tímabilið mjög vel en það vann 23 af 41 leik frá 19. janúar. Það gætu verið spennandi tímar framundan í Portland.