Camilla lék með norska landsliðinu undir stjórn Þóris Hergeirssonar um árabil. Hún lagði landsliðsskóna á hilluna eftir sigurinn á EM í desember, þá orðin næst leikjahæsta og þriðja markahæsta landsliðskona Noregs frá upphafi.
Alls tók Camilla þátt í tuttugu stórmótum með Noregi og vann sautján sinnum til verðlauna. Gullverðlaun vann Camilla tvisvar á Ólympíuleikunum, síðast í fyrra, þrisvar á HM og sex sinnum á EM.

Síðustu ár hefur hún leikið með Sola frá Stavanger í heimalandinu, þar sem eiginmaður hennar Steffen Stegavik er þjálfari.
Þau greindu frá fregnunum um brjóstakrabbameinið í sameiginlegri færslu á Instagram í gær. Þar segir hún rúmar þrjár vikur síðan hún fann hnút í brjóstinu, á stærð við baun. Fyrir viku síðan hafi læknir greint hana með brjóstakrabbamein og læknismeðferðin hefjist í dag.
„Þetta var algjört áfall, og er ennþá algjört áfall, mér finnst þetta ekki orðið raunverulegt ennþá“ sagði Camilla.