Sport

Einn sá besti í heimi ó­vænt úr leik í fyrstu um­ferð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Daniil Medvedev tók reiði sína út á spaðanum eftir tapið.
Daniil Medvedev tók reiði sína út á spaðanum eftir tapið. Clive Brunskill/Getty Images

Rússinn Daniil Medvedev, sem situr í níunda sæti heimslistans í tennis, féll óvænt úr leik í fyrstu umferð Wimbledon-mótsins í dag.

Medvedev, sem hefur í tvígang komist í undanúrslit Wimbledon, mætti Frakkanum Benjamin Bonzi í fyrstu umferð mótsins í dag. Bonzi situr í 64. sæti heimslistans og því bjuggust flestir við því að Medvedev færi nokkuð örugglega áfram.

Annað kom þó á daginn. Bonzi vann fyrsta settið 7-6 eftir upphækkun áður en Medvedev jafnaði metin með 6-3 sigri í öðru setti. Bonzi vann hins vegar næstu tvö sett, 7-6 eftir upphækkun og 6-2, og tryggði sér þar með farseðilinn í aðra umferð á kostnað Rússans.

Medvedev var augljóslega allt annað en sáttur með sjálfan sig eftir tapið og lét spaðann finna fyrir því í lok leiks. Þetta var í fyrsta sinn á ferlinum sem Medvedev fellur úr leik í fyrstu umferð á Wimbledon, og á sama tíma í fyrsta skipti sem Bonzi vinnur gegn andstæðingi í topp tíu á heimslistanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×