Sport

Hræddist á­horf­anda á Wimbledon: „Kannski er hann með hníf“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Yulia Putintseva lauk leik með tárin í augunum.
Yulia Putintseva lauk leik með tárin í augunum. Shaun Brooks - CameraSport via Getty Images

Tenniskonan Yulia Putintseva hafði áhyggjur af eigin öryggi og óskaði eftir því að áhorfandi yrði fjarlægður þegar hún spilaði á Wimbledon mótinu í gærkvöldi. Hún kallaði áhorfandann klikkaðan og óttaðist að hann væri vopnaður.

Dómari leiksins varð ekki við óskum hennar og Yulia brast í grát þegar leiknum við Amöndu Anisimova lauk, eftir aðeins þrjú korter, með lokaniðurstöðuna 6-0 og 6-0 tap í báðum settum.

Um miðbik fyrri settsins heyrðist Yulia óska eftir því við dómarann að áhorfandi yrði fjarlægður úr stúkunni.

„Geturðu tekið hann burt? Ég mun ekki halda áfram að spila fyrr en hann fer… Þetta fólk er hættulegt, þau eru klikkuð“ heyrðist Yulia segja samkvæmt breska ríkisútvarpinu.

Hún benti í átt að stúkunni og sagði áhorfandann grænklæddan. Dómarinn stöðvaði leikinn ekki en lét öryggisgæsluna vita.

„Þið verðið að fjarlægja hann, kannski er hann með hníf“ heyrðist Yulia þá segja.

Skipuleggjendur mótsins gáfu engar nánari upplýsingar um áhorfandann en sögðu í tilkynningu eftir leik að málið hefði verið leyst á staðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×