Fótbolti

Hroða­leg meiðsli Musiala setja dökkan blett á HM

Siggeir Ævarsson skrifar
Leikmenn beggja liða voru í miklu uppnámi enda meiðslin alvarleg og atvikið ekki endursýnt á stóra skjánum á vellinum
Leikmenn beggja liða voru í miklu uppnámi enda meiðslin alvarleg og atvikið ekki endursýnt á stóra skjánum á vellinum Vísir/Getty

Jamal Musiala, leikmaður Bayern Munchen og þýska landsliðsins fór alvarlega meiddur af velli í dag þegar Bayern og PSG mættust á heimsmeistaramóti félagsliða í Bandaríkjunum fyrr í dag.

Atvikið átti sér stað undir lok fyrri hálfleiks þar sem Musiala renndi sér á eftir bolta við endalínuna en flæktist í Gianluigi Donnarumma, markverði PSG, með þeim afleiðingum að það snérist mjög óeðlilega upp á ökkla Musiala sem var að lokum borinn af velli augljóslega mjög kvalinn.

Gianluigi Donnarumma, markvörður Paris Saint-Germain, var sýnilega í miklu uppnámi eftir atvikið.Vísir/Getty

Þrátt fyrir að ekkert hafi verið gefið út enn um alvarleika meiðslanna má leiða að því líkur að þau séu nokkuð alvarleg enda snérist mjög ónáttúrulega upp á fót Musiala sem gæti verið ökklabrotinn. Hann mun án vafa missa af upphafi næsta tímabils og gæti jafnvel misst af heimsmeistaramóti landsliða næsta sumar ef allt fer á versta veg.

Alþjóða knattspyrnusambandið hefur verið gagnrýnt töluvert fyrir að lengja tímabilið hjá bestu liðum heims með þessu móti og bjóða þannig hættunni á meiðslum heim. Þessi meiðsli munu ekki lækka þær gagnrýnisraddir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×