Erlent

Um sjö­tíu látnir í flóðunum og stúlknanna enn leitað

Agnar Már Másson skrifar
Viðbragðsaðilar leita við bakka Guadalupe-ár í kjölfar skyndiflóða í Texas.
Viðbragðsaðilar leita við bakka Guadalupe-ár í kjölfar skyndiflóða í Texas. AP

Fjöldi látinna vegna skyndiflóða í Texas fer hækkandi og enn er rúmlega tuttugu stúlkna leitað sem dvöldu í sumarbúðunum Camp Mystic þegar hamfarirnar skullu á.

Hamfaraflóð skall á miðhluta Texas á föstudag og olli skyndilegri hækkun á vatnsborði Guadalupe-árinnar nálægt Kerrville um 6-8 metra, sem leiddi til víðtæks tjóns.

Fjöldi látinna hefur risið í 69 manns í fimm sýslum yfir nóttina að sögn lörgegluyfirvalda. Í Kerr-sýslu tilkynntu yfirvöld um 43 dauðsföll — 28 fullorðna og 15 börn.

Sumar fjölskyldur hafa náð að bera kennsl á tjaldgesti sem létust í flóðunum. Yfirvöld sögðu í morgun að fjöldi barna sem saknað væri frá kristilegu Mystic-sumarbúðunum við Guadalupe væri 27. Um 750 stúlkur voru í sumarbúðunum þear flóðið reið yfir. Hundruðir björgunarmanna hafa staðið í ströngu yfir helgina að leita stúlknanna. 

Hið minnsta fjögur börn undir tíu ára eru látin, þar á meðal tvær stelpur úr sumarbúðunum.

Greg Abbott, ríkisstjóri Texas, sagði seint í gærkvöldi að sumarbúðirnar hefðu orðið fyrir hræðilegum skemmdum vegna flóðanna á þann hátt sem hann hefði ekki séð í öðrum náttúruhamförum, og að vatnið hefði náð upp að þökum kofanna.

„Við munum ekki hætta fyrr en við finnum hverja einustu stúlku sem var í þessum kofum,“ skrifar hann á samfélagsmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×