Innlent

Flug­vél Play lenti í hagl­éli og þurfti að snúa við

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Flugvél Play lenti í hagléli sem olli töluverðum skemmdum og varð til þess að snúa þurfti flugvélinni við.
Flugvél Play lenti í hagléli sem olli töluverðum skemmdum og varð til þess að snúa þurfti flugvélinni við. Play

Flugvél Play, sem var í leiguflugi fyrir pólska ferðaskrifstofu, var snúið við til lendingar skömmu eftir flugtak frá Katowice í Póllandi eftir að hafa lent í hagléli sem olli töluverðum skemmdum. 

Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, segir að ekki hafi verið nein hætta á ferðum og að vélinni hafi verið lent án vandkvæða en hún varð fyrir þó nokkrum skemmdum, sérstaklega framan á nefinu.

Fréttastofa Rúv greindi fyrst frá fréttinni en þar má sjá hve miklar skemmdir urðu á flugvélinni.

Flugvélin var í leiguflugi fyrir pólsku ferðaskrifstofuna SkyUp sem selur sólarlandaferðir frá Póllandi til Krítar. Áhöfnin um borð var íslensk en farþegar að mestu Pólverjar að sögn Birgis.

Vélin er nú komin inn í skýli á flugvellinum í Katowice í Póllandi þar sem hún er til skoðunar og viðgerðar. Ekki liggja frekari upplýsingar fyrir um skemmdirnar, umfang þeirra eða hve langan tíma tekur að gera við hana.

Veist þú meira um málið eða ert með myndir af skemmdunum? Við tökum á móti öllu myndefni á ritstjorn@visir.is eða magnusp@syn.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×