Golf

Ís­land í öðru sæti eftir fyrsta keppnis­dag á Evrópu­mótinu

Siggeir Ævarsson skrifar
Íslenska karlalandsliðið stillti sér upp áður en mótið hófst
Íslenska karlalandsliðið stillti sér upp áður en mótið hófst Golfsamband Íslands - Golf.is

Evrópumót karla, kvenna, stúlkna og pilta í golfi hófst í dag en Ísland teflir fram liði á öllum mótunum. Dagurinn fór frábærlega af stað hjá karlaliðinu sem er í 2. sæti eftir fyrsta keppnisdag.

Þeir Gunnlaugur Árni Sveinsson og Veigar Heiðarsson léku best íslensku kylfinganna í dag, báðir á fimm höggum undir pari og Dagbjartur Sigurbrandsson kom næstur á fjórum undir pari.

Alls lék íslenska liðið á 347 höggum en Englendingar leiða liðakeppnina á 340 höggum. Þess má geta að í liði Englands er Luke Poulter en hann er sonur Ryder Cup goðsagnarinnar Ian Poulter. Stöðuna í mótinu má sjá hér en mótið heldur áfram á morgun og verður spennandi að sjá hvort íslensku kylfingarnir halda sínu striki og komast áfram í baráttunu um Evrópumeistaratitilinn.

Evrópumót karla fer fram á Írlandi á Killarney golfvellinum og leikur Ísland í efstu deild ásamt 15 sterkustu liðum Evrópu. Fyrst er tveggja daga höggleikur og átta efstu liðin eftir þá keppni leika svo um Evrópumeistaratitilinn. 

Sveit Íslands í ár skipa:

Böðvar Bragi Pálsson, GR

Dagbjartur Sigurbrandsson, GR

Gunnlaugur Árni Sveinsson, GKG

Logi Sigurðsson, GS

Tómas Eiríksson Hjaltested, GR

Veigar Heiðarsson, GA

Þjálfari: Ólafur Björn Loftsson

Sjúkraþjálfari: Baldur Gunnbjörnsson

Grannt er fylgst með gangi mála á öllum fjórum mótunum á vefsíðu Golfsambands Íslands, Golf.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×