Erlent

Þurfa ekki lengur að fara úr skónum í öryggiseftirlitinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Reglubreytingin á meðal annars að auka skilvirkni á flugvöllum fyrir stórviðburði næsta árs.
Reglubreytingin á meðal annars að auka skilvirkni á flugvöllum fyrir stórviðburði næsta árs. Getty/David McNew

Samgönguöryggismálayfirvöld í Bandaríkjunum hafa breytt reglum sínum þannig að farþegar á flugvöllum landsins munu nú ekki þurfa að fara úr skónum í öryggiseftirlitinu nema í undantekningartilvikum.

Kristi Noem, heimavarnaráðherra Bandaríkjanna, segir margt hafa breyst og tækninni fleytt fram, auk þess sem reglubreytingin sé liður í því að auka skilvirkni fyrir Heimsmeistaramótið í knattspyrnu og 250 ára afmæli Bandaríkjanna á næsta ári.

Reglan um að farþegar tækju af sér skóna í öryggiseftirlitinu á öllum flugvöllum tók gildi árið 2006, ekki síst vegna uppákomu sem átti sér stað árið 2001. Þá reyndi Richard Reid, farþegi um borð í vél American Airlines á leið frá París til Miami, að virkja sprengju sem hann hafði falið í skóm sínum.

Flugvélin lenti í Boston, þar sem Reid var handtekinn.

Atvikið átti sér stað þremur mánuðum eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×