Körfubolti

Hægt að gista í glæsihúsi Michael Jordan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan átti sínu bestu ár í glæsihúsinu þegar hann fór á kostum með Chicago Bulls og vann NBA deildina sex sinnum á átta árum.
Michael Jordan átti sínu bestu ár í glæsihúsinu þegar hann fór á kostum með Chicago Bulls og vann NBA deildina sex sinnum á átta árum. Getty/Ken Levine

Ef þú ert mikill aðdáandi NBA goðsagnarinnar Michael Jordan og átt nokkrar milljónir lausar kæmi kannski til greina að drífa sig til Chicago á næstunni.

Það er núna hægt að fá að lifa einn dag eins og Michael Jordan en það kostar líka sitt.

Jordan hefur verið að reyna selja glæsihús sitt í Highland Park í Chicago í mörg ár en ekkert hefur gengið.

Verðið fór úr 29 milljónum dollara niður í 9,5 milljónir dollara en húsið seldist samt ekki.

Jordan tók það úr sölu en nú það komið aftur á markaðinn en bara á öðruvísi markað.

Jú, nú er hægt að leigja húsið á AirBnB vefnum. Þarna bjó hann þegar hann vann NBA deildina sex sinnum á átta árum frá 1991 til 1998.

Nóttin kostar fimmtán þúsund dollara, 1,8 milljón króna, en fer upp í sautján þúsund dollara á annatíma eða meira en tvær milljónir króna.

Þeir sem vilja leigja húsið í þrjár vikur þurfa síðan að borga 330 þúsund dollara eða 40,5 milljónir króna.

Húsið getur tekið á móti alls tólf manns í gistingu.

Þarna er hægt að fara í körfubolta á gamla einkavelli Jordan, taka á því í líkamsræktarsalnum hans, reykja vindla í vindlaherberginu, fara í golf, horfa á kvikmynd í litlum kvikmyndasal en allt byrjar þetta með því að keyra í gegnum hið heimsfræga 23 hlið við innkeyrsluna að húsinu.

Í húsinu eru sjö svefnherbergi og 17,5 baðherbergi.

Michael Jordan var á sínum tíma frægasti íþróttamaður heims þegar NBA sló í gegnum á heimsvísu. Vinsældir varnings merktum honum er enn það miklar að hann heldur sæti sínu meðal launahæstu íþróttamanna heims, tæpum aldarfjórðungi eftir að hann setti körfuboltaskóna upp á hillu í síðasta sinn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×