Umræðan

Þegar fyrir­tæki hafa ekki til­gang

Eyþór Ívar Jónsson skrifar

Þema ráðstefnu European Academy of Management – EURAM – 2025 í Flórens á Ítalíu í júní síðastliðnum var Managing with Purpose. Margir fræðimenn glímdu við hugtakið og hugmyndina um tilgang fyrirtækja á mismunandi viðburðum ráðstefnunnar, m.a. Colin Mayers (prófessor við Said Business School, Oxford University – Höfundur bókarinnar Capitalism and Crisis – How to Fix Them), Rebecca Henderson (prófessor við Harvard – Höfundur bókarinnar Reimagining Capitalism in a World of Fire), Terry McNulty (prófessor Emeritus við University of Liverpool Management School), Umberto Tombari (prófessor við University of Florence), Paolo Maria Vittorio Grande (stjórnarformaður Intesa Sanpaolo), Blance Segrestin og Armand Hatchuel (Prófessorar við Mines Paris Tech), Steen Thomsen (prófessor við Copenhagen Business School) og fleiri. Þetta var að mörgu leyti áhugaverð umræða sem ætti að vekja íslenska stjórnendur, stjórnarmenn og allt stofnanaumhverfið til umhugsunar.

Það er staðreynd að tilgangur fyrirtækja er í skötulíki.

Umræðan sem gleymdist

Terry McNulty fór yfir upphaf umræðunnar um stjórnarhætti í Bretlandi. Hann vann mikið með Andrew Pettigrew og fleirum og gerði m.a. rannsóknir fyrir Higgs skýrsluna sem kom út árið 2003, tíu árum eftir útgáfu Cadbury skýrslunnar. Cadbury skýrslan lagði grunninn að bresku leiðbeiningunum um stjórnarhætti sem eru í raun grunnurinn að langflestum leiðbeiningum, hvort sem er hér á landi eða annars staðar. Terry, sem hefur verið gestafyrirlesari á Viðurkenndir stjórnarmenn hjá Akademias, viðurkenndi að sú vinna sem var unnin á tíunda áratuginum horfði fyrst og fremst á skyldur stjórna en eiginlega ekkert á tilgang fyrirtækja. Bretar reyndu í raun aldrei að skilgreina tilgang fyrirtækja í þessari vinnu.

Þar af leiðandi hafa leiðbeiningar um stjórnarhætti einungis að litlu leyti tekið á umræðunni um tilgang fyrirtækja. Armand Hatchuel bætti reyndar við að prófessor heimsins eru búnir að kenna stefnumótun í marga áratugi án þess að hafa nokkurn skilning á tilgangi fyrirtækja. Hann bætti við að flestir hefðu meira að segja komist hjá því að skilgreina fyrirtækið, nema þá út frá fullkomlega misleiðandi kenningum úr hagfræðinni. Þar er kannski djúpt í árinni tekið en það verður samt að segjast að í flestum greinum er skautað yfir umræðuna um tilurð og tilgang fyrirtækja.

Hann benti líka á að fyrirtæki sem skilgreindu einhverja vegferð um að verða númer eitt, væru ekki að marka sér tilgang heldur að setja sér markmið.

Terry, sem varð Prófessor Emeritus á þessu ári, sagði að hann hefði verið búinn að missa áhugann á umræðunni um stjórnarhætti en væri núna fullur af áhuga á ný í ljósi þessarar umræðu um tilgang fyrirtækja. Það er viðfangsefni sem er verðugt að glíma við, ekki bara fyrir hann heldur helstu fræðimenn samtímans. Það er í raun grundvallarspurning sem varðar stjórnendur, stjórnir, starfsmenn, eigendur og aðra hagsmunaaðila miklu máli, hvort sem er hér á landi eða erlendis.

Misvísandi tilgangur

CBS prófessorinn Steen Thomsen fór stuttlega yfir rannsóknir á yfirlýsingum fyrirtækja um tilgang. Niðurstaðan var að yfir 90% fyrirtækja hafa í raun enga leiðandi skilgreiningu á tilgangi. Það væru hugsanlega einungis 2,5% fyrirtækja sem hefðu skýra skilgreiningu á tilgangi sínum.

Steen benti á að mörg fyrirtæki hefðu innihaldslaus slagorð sem hljómuðu eins og þau væru að gera eitthvað mikilvægt en endurspeglaði engan vegin tilgang þeirra eða stefnumörkun. Hann benti líka á að fyrirtæki sem skilgreindu einhverja vegferð um að verða númer eitt, væru ekki að marka sér tilgang heldur að setja sér markmið. Hann tók einnig fyrir frumkvöðlanálgunina um að skapa virði fyrir viðskiptavininn og sagði að tilgangur fyrirtækisins yrði að snúast um eitthvað meira en bara viðskiptavininn enda eru hagaðilarnir fleiri. Einnig benti hann á að tilgangur sem væri einföld sjálfbærniyfirlýsing væri heldur enginn tilgangur, heldur í ætt við innihaldslaus slagorð.

Steen kynnti þessar niðurstöður sem nokkra flokka (taxonomy) fyrir hvernig fyrirtæki eru að skilgreina sig. A. Slagorð – hljómar vel en virkar innantómt, B. Númer 1 – að vera leiðandi fyrirtæki, C. Vara – Tilgangurinn er varan sjálf, D. Viðskiptavinurinn – tilgangurinn er viðskiptavinurinn, E. Vara + – tilgangurinn er að þjóna viðskiptavinum með því að bjóða vöru, á sama tíma og tekið er tillit til samfélagsins, sjálfbærni, hagsmunaaðila, samfélagsábyrgðar o.s.frv., F. Sjálfbærni – tilgangurinn er sjálfbærni.

Steen hefur jafnframt sett fram einskonar þróunarferli yfirlýsinga um tilgang fyrirtækja:

  • Tilgangur 0.0 – Ákall … „fyrir betri heim“
  • Tilgangur 1.0 – Tilgangurinn er varan
  • Tilgangur 2.0 – Tilgangurinn er að skapa virði fyrir viðskiptavininn
  • Tilgangur 3.0 – Tilgangurinn er að skapa virði fyrir samfélagið í heild í gegnum starfsemi fyrirtækisins, á meðan tryggt er að framlag þess sé nettó jákvætt fyrir alla hagsmunaðila og umhverfið
  • Tilgangur 4.0 – Nettó jákvætt – virðissköpun umfram einka- og samfélagslegan kostnað

Það sem Steen Thomsen var að fjalla um er að við þurfum í auknum mæli að skoða hvernig við skilgreinum tilgang fyrirtækja, þar sem tilgangurinn ætti að vera grunnur að markmiðum og stefnu fyrirtækja. Misvísandi eða innihaldslaus tilgangur getur skapað of veikan grunn til að byggja framtíð og árangur félagsins á.

Tilgangsþvottur fyrirtækja

Hugmyndin um nettó jákvætt virði kemur úr samnefndri bók Andrew S. Winston og Paul Polman, fyrrverandi forstjóra Unilever. Markmiðið er að „gefa meira en þau taka“, þ.e. fyrirtæki hafa jákvæð áhrif á samfélag og umhverfi, jafnvel þó þau stundi hefðbundinn viðskiptarekstur og leitist eftir arðsemi.

Hugmyndir þeirra Winstons og Polmans um nettó jákvæð áhrif fela það í sér að fyrirtæki leggi sig fram að skila ávinningi umfram kostnað til samfélagsins, þori að taka afstöðu og ábyrgð, leiti eftir samvinnu og samtali við hagaðila og átti sig á langtímaávinningi þess að byggja upp umhverfis – og samfélagslegt traust sem hluta af arðbærum rekstri. Síðast en ekki síst snýst þessi hugmyndafræði um að tilgangur fyrirtækja sé ekki PR æfing heldur stefnumarkandi drifkraftur.

Það sem vakti athygli mína er að við höfum búið til stjórnarkerfi og fyrirtækjalöggjöf sem byggja á hugmyndafræði í anda Friedmans um að hluthafar séu þeir einu skipta máli þegar kemur að rekstri fyrirtækja.

Steen tók í sama streng og þeir Winston og Polman, það væri allt of mikið um að umræðan um tilgang fyrirtækja væri lítið annað en fallegur texti. Með öðrum orðum þá hélt Steen því fram að fyrirtæki væru ekki að vinna með tilgang að neinu viti. Hugsanlega telja þau sig ekki þurfa að skilgreina tilgang heldur að skrifa eitthvað í staðinn sem hljómar vel.

Það er jafnvel farið að tala um „tilgangsþvott“ eins og „grænþvott“ þegar fyrirtæki skrifa einhvern tilgang á heimasíðuna og í ársskýrslur sem er í raun og veru lítið annað en marklaust orðagjálfur.

Friedman brenglunin

Ítalinn og lögræðiprófessorinn Umberto Tombari fjallaði um hvernig tilgangur kemur fram í lögum ólíkra ríkja, þ.e. í Þýskalandi, Ítalíu, Frakklandi, Bretlandi, Bandaríkjunum og svo hvernig Evrópusambandið er að nálgast málið. Í stuttu máli benti hann á að flest lög virtust ekki fjalla að neinu viti um tilgang og væru stunduð skrifuð í anda hugmynda Milton Friedmans, að tilgangur fyrirtækja sé að hámarka hagnað. Í lengra máli fjallaði hann um að það væri sjaldan talað um tilgang fyrirtækja í lögum og oftast með mjög takmörkuðum hætti hver tilgangur fyrirtækja er eða ætti að vera.

Stjórnarformaður Intesa Sanpaolo, sem er jafnframt með doktorspróf þó að hann starfi ekki við akademíuna, Paolo Maria Vittorio Grande, tók undir orð Tombari og benti á að þetta væri eitt af stóru viðfangsefnum fyrirtækja og sérstaklega stjórna fyrirtækja. Hann vitnaði í og tók undir orð Larry Fink, stjórnarformanns fjárfestingafélagsins BlackRock, sem skrifaði í bréfi til hluthafa fyrir fáeinum árum að hagnaður fyrirtækja og sjálfbær tilgangur færi hönd í hönd en væru ekki andstæður.

Það sem vakti athygli mína er að við höfum búið til stjórnarkerfi og fyrirtækjalöggjöf sem byggja á hugmyndafræði í anda Friedmans um að hluthafar séu þeir einu skipta máli þegar kemur að rekstri fyrirtækja. Þetta er einskonar brenglun eða bjögun (bias) ef við beitum hegðunarhagfræði Kahneman og Tversky, rétt eins og sokkinn kostnaður og akkerisgildran. Hámörkun hagnaðar er þá brenglun vegna þess að það hvetur fyrirtæki til þess að leita allra leiða til þess að hámarka hagnað, jafnvel þó að það skaði aðra eða leiði til eyðileggingar hvort sem er á náttúru eða samfélagi. Það er ekki skynsamleg ákvarðanataka. Lögin ná sjaldnast að búa til þann ramma sem tryggir það að fyrirtæki geri aldrei skaða. Það kom í ljós í eftirmála fjármálakrísunnar hér á landi að þrátt fyrir að skaðinn væri augljós var ekki til skýr lagarammi til þess að glíma við sekt eða sakleysi.

Við hljótum að þurfa að sanna að þau fyrirtæki sem leitast við að hámarka hagnað fyrir hluthafa skili í raun og veru betri arðsemi en önnur fyrirtæki sem byggja á hagaðilamódelinu.

Við virðumst hafa búið til fyrirkomulag sem byggir á ranghugmyndum. Oft er vitnað í Adam Smith, sem faðir hagfræðinnar, í því samhengi og þá er búið að stroka út þá staðreynd að Adam Smith talaði mikið um siðferði fyrirtækja og að þau yrðu að láta gott af sér leiða. Ranghugmyndirnar eru þá lítið annað en illa rökstuddur áróður.

Röng tilgáta

Ég stýrði áhugaverðu viðtali við Harvard-prófessorinn Rebeccu Henderson á ráðstefnu EURAM þar sem hún var aðalræðumaður. Hún benti á að hugsanlega hefðum við verið að nálgast umræðuna um tilgang fyrirtækja og sjálfbærni með ranga tilgátu að leiðarljósi. Við höfum lengst af verið að reyna sýna fram á að þau fyrirtæki sem hafa annan tilgang en að hámarka hagnað skili betri arðsemi og árangri.

Rebecca sagði að það væri ekki nauðsynlegt að setja fram tilgátuna með þeim hætti. Miklu nær væri að reyna að afsanna tilgátuna um að fyrirtæki sem byggja á hagaðilamódelinu, eru með skýran tilgang eða sjálfbærniviðmið skili verri arðsemi en þau fyrirtæki sem leitast eftir að hámarka hagnað. Það hefur ekki tekist að afsanna þá tilgátu að mati Rebeccu sem vitnaði í fjölda rannsókna. Það skiptir ekki máli hvort að þau fyrirtæki sem byggja á hagaðilamódelinu skili betri arðsemi en þau sem byggja á hluthafamódelinu heldur að þau skili ekki verri arðsemi. Það er núverandi niðurstaða sem þýðir með öðrum orðum að hluthafar fyrirtækja munu ekki tapa á því að hjálpa fyrirtækjum að tryggja fleiri hagaðilum tilgang, viðmið og hlutdeild í árangri.

Það er svo önnur saga að það er til mikið af rannsóknum, samkvæmt niðurstöðu Rebeccu, sem benda til þess að fyrirtæki sem byggja á hagaðilamódelinu séu einfaldlega arðsamari en þau sem byggja á hluthafamódelinu og hámörkun hagnaðar. Það gefur líka augaleið að slík nálgun, að hámarka hagnað, hættir til við að leiða til skammtímahagsmuna þar sem fjárfestar hugsa oft frekar í ársfjórðungum en árum eða áratugum.

Þessi endurskoðun á tilgátu um árangur fyrirtækja út frá hagaðilamódelinu annars vegar og hluthafamódelinu hins vegar er mjög áhugaverð. Við hljótum að þurfa að sanna að þau fyrirtæki sem leitast við að hámarka hagnað fyrir hluthafa skili í raun og veru betri arðsemi en önnur fyrirtæki sem byggja á hagaðilamódelinu. Eins og staðan er þá hefur fræðimönnum ekki tekist að gera það með óyggjandi hætti og þar af leiðandi er ekki hægt að halda öðru fram en að þau fyrirtæki sem leitast við að byggja á hagaðilamódeli, sjálfbærni eða skýrum tilgangi séu í raun og veru í góðum „bissness“.

Fé án hirðis eða hirðir með framtíðarsýn?

Þegar ég heyrði fyrst um sjálfseignastofnanir eða samfélagssjóði (foundations) í Danmörku verð ég viðurkenna að gamalt slagorð úr smiðju Péturs Blöndals stærðfræðings og þingsmanns gall í eyrum mínum – Fé án hirðis! Pétur nefndi þetta oft sem vandamál í rekstri stofnana og opinberra fyrirtækja. Það gat ekki verið gott að fyrirtæki væru rekin með þeim hætti að enginn augljós eigandi væri að stýra fyrirtækinu. Það er hins vegar erfitt að horfa fram hjá því að fyrirtæki eins og Novo Nordisk, sem er eitt árangursríkasta fyrirtækja Evrópu, er einmitt rekið með samfélagssjóð sem kjölfestufjárfesta og þar af leiðandi fé án hirðis.

Á sama tíma er háskólaumhverfið hér fjársvelta og vísinda- og nýsköpunarstarf ekki samanburðar- eða samkeppnishæft við þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við.

Colin Mayer hefur verið duglegur að fjalla um af hverju danska fyrirtækjaumhverfið er einstakt og árangur danskra fyrirtækja eftirtektarverður, hvort sem kemur að skila hagnaði eða samfélagslegum ávinningi. Hann hefur vakið heimsathygli á samfélagssjóðum Danmerkur. Það eru um 1.300 samfélagssjóðir í Danmörku og þeir eiga um fjórðung hundrað stærstu fyrirtækja Danmerkur og 70% af markaðsvirði kauphallarinnar í Danmörku. Fyrirtæki eins og A.P. Møller–Mærsk, Novo Nordisk og Carlsberg, sem eru leiðandi fyrirtæki í Danmörk, eru í eigu samfélagssjóða. Þetta fyrirkomulag er ekki einungis þekkt í Danmörku þar sem fyrirtæki eins og IKEA, Robert Bosch, Tata Group, Wallenberg, Rolex, The Hershey Co, Carl Zeiss og fleiri fyrirtæki eru með samfélagssjóði sem kjölfestueigendur. Þessir sjóðir eru sjálfseignarstofnanir og greiða ekki út arð heldur styrkja í staðinn mikilvæg málefni.

Áætlað hefur verið að um helmingur af framlagi sjóðanna árið 2023, sem var um 370 milljarðar, hafi farið til vísinda og nýsköpunar í Danmörku eða sem nemur 185 milljörðum íslenskra króna. Árið 2023 sameinuðust sex sjóðir – Novo Nordisk, Villum, Carlsberg, Velux, Lundbeck og LEO foundations – í að styrka háskóla og rannsóknarumhverfið í Danmörku bæði með beinum styrkjum og með rekstrarstyrkjum fyrir rannsóknarverkefni. Vísinda- og nýsköpunarstarf hefur blómstrað í Danmörku fyrir vikið og framtíðin er björt ekki síst vegna þess að samfélagssjóðirnir eru jafnframt að byggja upp þá klasa sem hafa gert Dani leiðandi á mörgum sviðum.

Á sama tíma er háskólaumhverfið hér fjársvelta og vísinda- og nýsköpunarstarf ekki samanburðar- eða samkeppnishæft við þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við. Hér á landi eru lífeyrissjóðirnir í hlutverki samfélagssjóðanna í Danmörku sem kjölfestufjárfestar, sem hafa allt annan tilgang og markmið með sínu eignarhaldi í íslensku atvinnulífi.

Það er áhugavert að eitt af stóru íslensku félögunum, Mannvit hf., var nýlega yfirtekið af fyrirtækinu Cowi A/S. Cowi er í 85% eigu samfélagssjóðsins CowiFonden. Þar af leiðandi höfum við dæmi um félag á Íslandi sem er rekið með samfélagssjóð sem bakhjarl. Allt bendir til að það sé „hirðir“ með framtíðarsýn.

Steen Thomsen, Nicolai J. Foss og fleiri leiðandi viðskipta- og hagfræðingar í Danmörku hafa rannsakað og fjallað mikið um samfélagssjóðina og nefna þá sem dæmi um fyrirtæki sem hafa skýran tilgang og langtímamarkmið. Það sem Colin Mayer hefur svo bent á er að þetta fyrirkomulag skapar traust og stöðugleika og skýr tilgangur felur í sér samfélagslegar skyldur og langtímaávinning.

Samfélagssjóðir Danmerkur eru klárlega dæmi um nettó jákvæð áhrif fyrirtækja.

Tómlætið

Ég fjallaði um tilgang fyrirtækja í grein á Innherja sem hét Tilgangur fyrirtækja eða tómlæti. Eins og við sjáum hér að ofan þá er tómlætið ráðandi fyrirkomulag hjá fyrirtækjum. Þetta tómlæti stafar af einskonar Kahneman brenglun eða bjögun þar sem við trúum á hugmyndir Friedmans, sem eru alls ekki sannar eða réttar ef við miðum við rannsóknir undanfarinna ára. Afleiðingin er að öllum líkindum verr rekin fyrirtæki sem skila minna til hluthafa og lítið sem ekkert til samfélagsins ef þau hafa ekki skaðleg áhrif.

Það vakti athygli mína þegar ég skoðaði fyrst samfélagssjóðina í Danmörku að við höfum ekki einu sinni lagagrundvöll sem gerir kleift að stofna slíka samfélagssjóði hér á landi. Lög um sjálfseignarstofnanir ná ekki utan um það hér um ræðir. En það hefur ekki verið nein umræða um þetta að ráði hér á landi.

Það er allavega áhugavert að margir af helstu fræðimönnum heimsins í hagfræði og viðskiptafræði eru farnir að tala einu máli þegar kemur að mikilvægi þess að fyrirtæki hafi tilgang sem stefnumarkandi drifkraft fyrir hluthafa og aðra hagaðila.

En skiptir þetta einhverju máli? Skiptir einhverju máli hvort að fyrirtæki hafi tilgang eða ekki ef það hefur gengið svona illa í viðskipta-og hagfræði að skilgreina tilurð og tilgang fyrirtækja?

Það skiptir máli vegna þess að þessi fyrirtæki sem hafa skýran tilgang, tilgang sem talar til hagaðila, eru alls ekki í verri „bissness“ en þau fyrirtæki sem eru rekin með hámörkun hagnaðar í huga. Það eru allar líkur á að þau fyrirtæki skili jafnvel betri arðsemi til hluthafa. En það sem meira er, og enn mikilvægara, er að þau skila til samfélagsins jákvæðum áhrifum. Við horfum á háskólasamfélagið hér smám saman molna niður þegar það er orðið of stór baggi á ríkissjóði á sama tíma og það blómstrar í Danmörku vegna þess að atvinnulífið, samfélagssjóðirnir, trúa á að hagur atvinnulífsins fari saman við hag samfélagsins þegar kemur að vísindum og nýsköpun.

Það var von mín að með þema EURAM ráðstefnunnar í Flórens í ár að við gætum átt samtal um tilgang fyrirtækja sem myndi hjálpa til við að upplýsa og efla atvinnulíf um heim allan. Það er verið að stíga áhugaverð skref á Ítalíu og Frakklandi varðandi hvernig hægt er að efla tilgang og samfélagslegar áherslur fyrirtækja. Danir eru til fyrirmyndar.

Grunnur að árangursríkri stjórnun

Sumir kunna að líta á þessar hugmyndir sem fráhvarf frá klassískum markaðssjónarmiðum, en þær endurspegla í raun nýjan kapítalisma þar sem hagkvæmni og samfélagsleg ábyrgð fara saman. Það er allavega áhugavert að margir af helstu fræðimönnum heimsins í hagfræði og viðskiptafræði eru farnir að tala einu máli þegar kemur að mikilvægi þess að fyrirtæki hafi tilgang sem stefnumarkandi drifkraft fyrir hluthafa og aðra hagaðila.

Ef við ætlum að búa til traust og arðbær fyrirtæki í íslensku samfélagi, þurfum við ekki einungis að spyrja hvað fyrirtæki gera – heldur af hverju þau gera það. Tilgangur er ekki mjúkt hugtak heldur harður grunnur að ábyrgri, traustri og árangursríkri stjórnun.

Höfundur er forseti Akademias og VP EURAM Conferences.


Tengdar fréttir

Tilgangur fyrirtækja eða tómlæti

Það er ólíklegt að eitthvað fyrirtæki muni falla fyrir það að hafa skýran tilgang sem höfðar til margra hagaðila. Það er hins vegar miklu líklegra að tómlæti verði fyrirtækjum að fjörtjóni. Fyrirtæki án tilgangs er einfaldlega líklegra til þess að vera stefnulaust í stórsjó óvissunnar. Fólk hefur minni áhuga að vinna fyrir slík félög, að versla við þau eða þá að fjárfesta í þeim.




Umræðan

Sjá meira


×