Fótbolti

Gascoigne fannst með­vitundar­laus og fluttur á spítala

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Líðan Paul Gascoigne er sögð stöðug.
Líðan Paul Gascoigne er sögð stöðug. Michael Regan/Getty Images

Paul Gascoigne, fyrrverandi leikmaður enska landsliðsins í knattspyrnu, fannst meðvitundarlaus á heimili sínu síðastliðinn föstudag og var í kjölfarið fluttur á spítala.

Daily Mail og fleiri miðlar greina frá málinu, en þar kemur fram að Gascoigne hafi hnigið niður á heimili sínu á föstudaginn. Vinur hans hafi svo komið að honum inni í herbergi þar sem hann var hálf meðvitundarlaus.

Gascoigne var fluttur á bráðamóttöku, en líðan hans er nú sögð vera stöðug.

Vinur hans, Steve Foster, sem kom að Gascoigne sendi frá sér stutta yfirlýsingu fyrir hönd fyrrum knattspyrnumannsins.

„Gazza vill þakka öllum sem hafa sýnt honum stuðning. Svo margir gamlir vinir hafa sent honum hughreystandi skilaboð og óska þess að hann nái sér að fullu á ný,“ sagði Foster.

Gascoigne lék á sínum ferli fyrir lið á borð við Newcastle, Tottenham, Lazio og Everton og þá á hann að baki 57 leiki fyrir enska landsliðið.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem heilsufar Gascoigne ratar í fréttirnar eftir að ferli hans lauk, en hann hefur lengi glímt við andleg veikindi og alkóhólisma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×