Fótbolti

Fylgdi þrennuni eftir með marki í dramatískum sigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stefán Ingi Sigurðarson skoraði annað mark Sandefjord í dag.
Stefán Ingi Sigurðarson skoraði annað mark Sandefjord í dag. Sandefjord Fotball

Knattspyrnumaðurinn Stefán Ingi Sigurðarson var aftur á skotskónum í dag er Sandefjord vann dramatískan 3-2 sigur gegn Sarpsborg 08 í norska fótboltanum í dag.

Stefán Ingi varð um síðustu helgi níundi Íslendingurinn til að skora þrennu í norsku úrvalsdeildinni. Hann kláraði þrennuna strax í fyrri hálfleik, í leik sem Sandefjord vann 6-0 gegn Kristiansund.

Stefán nýtti sér meðbyrinn er Sandefjord tók á móti Sarpsborg í dag. Stefán skoraði annað mark heimamanna í uppbótartíma fyrri hálfleiks og sá til þess að Sandefjord fór með 2-0 forystu inn í hléið.

Gestunum tókst hins vegar að jafna metin með tveimur mörkum úr vítaspyrnum.

Það stefndi því allt í jafntefli, en Robin Dzabic reyndist hins vegar hetja heimamanna er hann tryggði liðinu 3-2 sigur með marki á fjórtándu mínútu uppbótartíma.

Sigurinn þýðir að Sandefjord er nú með 27 stig í fimmta sæti deildarinnar eftir 15 leiki, fimm stigum meira en Sarpsborg sem situr í áttunda sæti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×