Fótbolti

Jóhannes skrifar undir hjá Kolding

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jóhannes Kristinn skrifar undir hjá Kolding.
Jóhannes Kristinn skrifar undir hjá Kolding. Facebook

Jóhannes Kristinn Bjarnason hefur skrifað undir hjá danska félaginu Kolding. Skiptin hafa legið í loftinu í vikunni.

Bjarni Guðjónsson, faðir Jóhannesar, birti mynd af syninum við undirskrift á samningi á Facebook-síðu sinni í dag. Jóhannes fer frá KR til Kolding en samningur hans við Vesturbæjarliðið var við það að renna út í haust.

Tipsbladet greinir frá því að Kolding borgi KR um tíu milljónir króna fyrir Jóhannes. Jóhannes er 20 ára gamall og reynir fyrir sér í atvinnumennsku öðru sinni.

Hann var samningsbundinn Norrköping í Svíþjóð frá 2021 til 2023 og tókst að spila einn leik fyrir aðallið félagsins þrátt fyrir ungan aldur. 2023 kom hann heim í KR, hvar hann er uppalinn, og hefur verið þar til nú.

Síðasti leikur Jóhannesar fyrir KR var 1-1 jafntefli við Breiðablik um helgina. Hann skoraði sex mörk í 15 leikjum fyrir liðið í sumar. KR situr í 11. sæti Bestu deildarinnar með 17 stig, einu frá öruggu sæti.

Fótbolti.net greinir frá því að KR vilji fá Orra Hrafn Kjartansson, leikmann Vals, til að fylla í skarð Jóhannesar. Samningur Orra Hrafns við Val rennur út eftir tímabilið.

Kolding er í fimmta sæti í dönsku B-deildinni með þrjú stig eftir fyrstu tvo leiki tímabilsins sem var að hefjast í Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×