Körfubolti

NBA stjarna sökuð um að stela tugum milljóna frá spila­vítum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Morris þegar hann var leikmaður LA Clippers en hann hefur spilað með mörgum félögum í NBA.
Marcus Morris þegar hann var leikmaður LA Clippers en hann hefur spilað með mörgum félögum í NBA. Getty/Harry How

NBA reynsluboltinn Marcus Morris situr enn í fangelsi eftir að hann var handtekinn á flugvelli í Flórída um helgina.

Nú eru meiri upplýsingar um málið að koma fram í dagsljósið. TMZ Sports fjallar um handtöku Morris sem fékk sig ekki lausan gegn tryggingu. Dómarinn hafnaði beiðni lögfræðinga hans.

Samkvæmt TMZ þá er Morris sakaður um að stela tugum milljóna króna frá spilavítum.

Alls eru þetta 265 þúsund Bandaríkjadalir sem Morris á að hafa komist yfir með svikum og prettum. Það gerir tæpar 33 milljónir króna.

Morris gerði það með því að nota innihaldslausar ávísanir. Þetta gerði hann í tveimur spilavítum í Las Vegas á árinu 2024 samkvæmt frétt TMZ.

Morris var handtekinn á sunnudaginn á Fort Lauderdale-Hollywood flugvellinum og hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan.

Morris hefur spilað 832 leiki í NBA en var ekkert með á síðasta tímabili. Hann lék síðast með Cleveland Cavaliers í maí 2024.

Morris hefur spilað í þrettán tímabil í NBA og alls unnið sér inn 108 milljónir dala á NBA ferlinum eða meira en þrettán milljarða.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×