Viðskipti innlent

Festi hagnast um­fram væntingar

Agnar Már Másson skrifar
Festi á og rekur N1, Elko og Krónuna.
Festi á og rekur N1, Elko og Krónuna. vísir/egill

Hagnaður fjárfestingafélagsins Festar fór fram úr væntingum á öðrum ársfjórðungi og jókst rekstrarhagnaður fyrir afskriftir um 35 prósent miðað við sama ársfjórðung síðasta árs, en það má að miklu leyti rekja til Lyfju sem gekk nýlega inn í samsteypuna. 

Í kauphallartilkynningu frá Festi er haft eftir Ástu S. Fjeldsted forstjóra að niðurstaða ársfjórðungsins hafi farið fram úr áætlunum.

Í tilkynningunni segir að félagið hafi úthlutað arði fyrir 1.401 milljón króna, sem greitt var til hluthafa 9. apríl síðastliðinn en félagið er að mestu leyti í eigu lífeyrissjóða.

Vörusala Festar nam 43.579 milljónum króna sem er aukning um 20,9 prósent milli ára en það má helst rekja til áhrifa af Lyfju, sem Festi keypti í fyrrasumar. Ef ekki er gert ráð fyrir Lyfju nam aukningin 7,3 prósentum. 

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 3.938 millj. kr. og hækkar um 35,1 prósent milli ára en 21,6 prósent án áhrifa frá Lyfju.

Framlegð af vöru- og þjónustusölu nam 11.008 milljónum króna sem er aukning um 28,1 prósent á milli ára en 10,5 prósent án áhrifa Lyfju.

Framlegðarstig nam 25,3 prósentum og hækkar um 1,5 p.p. frá 2F 2024 og hækkar um 0,9 p.p. frá síðasta ársfjórðungi. Laun og starfsmannakostnaður nam 5.585 millj. kr. og eykst um 26,6% milli ára en 5,9% án áhrifa Lyfju.

Hagnaður fjórðungsins nam 1.419 milljónum króna og hækkar um 467 milljónir króna milli ára. Eigið fé nam 44.123 milljónum króna og er eiginfjárhlutfallið 37,7 prósent í lok 2F 2025 samanborið við 37,9% í lok árs 2024. EBITDA-spá félagsins fyrir árið 2025 var hækkuð 17. júlí um 800 millj. kr. og nemur 15.200 – 15.600 millj. kr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×