Körfubolti

Callum Lawson aftur til Vals­manna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Callum Lawson fagnar Íslandsmeistaratitli með Val.
Callum Lawson fagnar Íslandsmeistaratitli með Val. Vísir/Bára

Callum Lawson mætir aftur á Hlíðarenda í haust og mun spila með karlaliði Vals í Bónus deildinni á komandi leiktíð.

Callum er öllum hnútum kunnugur í Val enda varð hann Íslandsmeistari með liðinu 2022 og bikarmeistari 2023.

Lawson lék með Keflavík á síðustu leiktíð og var með 13,5 stig og 3,8 fráköst í leik. Hann var þá að mæta aftur í Keflavík þar sem hann hóf sinn feril á Íslandi veturinn 2019 til 2020.

Hann varð einnig Íslandsmeistari með Þór Þorlákshöfn 2021 og spilaði með Tindastól tímabilið 2023-24.

Lawson lék með Valsmönnum í tvö tímabil, var með 15,3 stig og 3,9 fráköst í leik fyrra tímabilið 2021-22 og 15,0 stig og 5,9 fráköst í leik tímabilið á eftir.

„Við erum einkar ánægðir með að fá Callum til okkar aftur eftir nokkurra ára fjarveru. Hann er frábær liðsmaður og félagi sem kemur með mikla fjölhæfni að borðinu. Við eigum góða sögu saman og hlökkum til að skrifa næsta kafla á næsta tímabili” sagði Finnur Freyr Stefánsson þjálfari liðsins, í viðtali á miðlum Vals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×