Íslenski boltinn

Orri Hrafn í KR og getur spilað í Eyjum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Orri Hrafn er kominn í svart og hvítt.
Orri Hrafn er kominn í svart og hvítt. Mynd/KR

Orri Hrafn Kjartansson er genginn í raðir KR frá Val. Hann er kominn með leikheimild og getur því leikið með KR gegn ÍBV í Vestmannaeyjum á morgun.

Skiptin eru gengin í gegn á félagsskiptavef KSÍ en þau höfðu legið í loftinu í vikunni. KR hafði leitað miðjumanns eftir að ljóst var að Jóhannes Kristinn Bjarnason yfirgæfi félagið. Jóhannes samdi við Kolding í Danmörku í vikunni.

Uppfært kl. 10:00: KR hefur opinberað skiptin á miðlum sínum. Greint er frá því að Orri Hrafn skrifi undir þriggja ára samning, út leiktíðina 2028.

Orri Hrafn kemur frá Val en samningur hans við Val var við að renna út í lok tímabils í október. Orri Hrafn hefur verið leikmaður Vals frá 2022 en var þá keyptur frá uppeldisfélaginu Fylki. Áður fór hann sem unglingur til Heerenveen í Hollandi.

Orri hefur verið varaskeifa hjá Val í sumar og aðeins byrjað fimm leiki af 16 í deild.

Orri Hrafn er annar leikmaðurinn sem KR festir kaup á í sumarglugganum á eftir Amin Cosic sem kom frá Njarðvík. Einnig var varnarmaðurinn Jón Arnar Sigurðsson kallaður til baka úr láni frá Leikni.

Orri Hrafn getur leikið sinn fyrsta leik fyrir KR-inga þegar liðið sækir ÍBV heim í Þjóðhátíðarleikinn í Vestmannaeyjum á morgun. 

KR situr í 11. sæti deildarinnar, tveimur frá botninum, með 17 stig eftir 16 leiki. Vesturbæingar eru einu stigi frá þremur liðum þar fyrir ofan og tvö stig eru upp í sjöunda sætið í einkar jöfnum neðri hluta deildarinnar.

Leikur ÍBV og KR er klukkan 14:00 á morgun. Hann verður sýndur beint á Sýn Sport Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×