Íslenski boltinn

„Ég veit ekkert hverjir þetta voru“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Heimir Guðjónsson
Heimir Guðjónsson Vísir / Erni Eyjólfsson

„Ég held þeir hafi fengið eitt færi í fyrri hálfleik og þeir skora úr því,“ segir Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, eftir 2-2 jafntefli hans manna við Víking í Kaplakrika í Bestu deild karla í fótbolta síðdegis.

„Þeir refsa. Þeir þurfa ekki mörg færi til að skora mörk. Vonbrigðin eru að þeir, eftir að við skorum, jafna þeir eftir tvær mínútur og í seinni hálfleik jafna þeir líka eftir tvær mínútur. Það eru vonbrigði að við höngum ekki betur á þessu,“ segir Heimir.

Það var einmitt saga leiksins. Í bæði þau skipti sem FH komst yfir kom kraftur í Víkinga sem jöfnuðu fljótt. Sem er sérlega frústrerandi fyrir þjálfara að horfa upp á.

„Við höfum talað um það, þegar við skorum mörk, þá þurfum við að vera klókir í skipulaginu og ekki missa einbeitinguna. Við gerum það og það er frústrerandi.“

Þreytumerki voru á Víkingum sem spiluðu 120 mínútur í Sambandsdeildinni á fimmtudaginn var og eru í mikilli Evróputörn. FH hafði sannarlega tækifæri til að vinna leik dagsins.

„Mér fannst góður séns að vinna Víking í dag – þeir eru í hörkuálagi. En þeir eru með frábært lið eins og sést á mönnunum sem koma inn af bekknum hérna.“

FH tapaði leiknum þó ekki. Þar með lýkur tíu leikja sigurhrinu Víkings gegn FH í efstu deild.

„Við settum það upp á töflu í gær á myndbandsfundinum, hvort menn vildu ekki fara að svara fyrir þetta. Tíu tapleikir. Það var stolt og samstaða í þessu og við verðum að vinna með það,“ segir Heimir.

Ítalskur túristahópur vakti þá mikla athygli í stúkunni og lét vel í sér heyra. Heimir kunni vel að meta að FH-ingum hefði borist liðsstyrkur frá meginlandinu í stúkuna.

„Ég varð var við þetta. En ég veit ekkert hverjir þetta voru. Þetta var frábær stuðningur og hjálpaði liðinu klárlega,“ sagði Heimir og glotti við tönn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×