Körfubolti

Dildó-faraldurinn heldur á­fram í WNBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sophie Cunningham hjá Indiana Fever með Caitlin Clark. Clark gat ekki spilað leikinn vegna meiðsla en svo virtist vera sem dildóanum hafi verið kastað í átt að Cunningham.
Sophie Cunningham hjá Indiana Fever með Caitlin Clark. Clark gat ekki spilað leikinn vegna meiðsla en svo virtist vera sem dildóanum hafi verið kastað í átt að Cunningham. Getty/Ron Jenkins

Í þriðja sinn á stuttum tíma var kynlífsleikfangi kastað inn á völlinn í miðjum körfuboltaleik í WNBA deildinni.

Enn á ný var það grænn dildó sem kom fljúgandi inn á gólfið en að þessu sinni í leik Los Angeles Sparks og Indiana Fever í nótt.

Það er augljóst að forráðamenn WNBA deildarinnar þurfa að fara gera einhverjar ráðstafanir áður en illa fer. Það bárust líka myndir af því á samfélagsmiðlum að þetta var ekki eini græni dildóinn í höllinni.

Í þetta skiptið leit samt út fyrir að viðkomandi hafi verið að miða á Sophie Cunningham, leikmann Indiana Fever.

Cunningham setti einmitt færslu inn á samfélagsmiðla á dögunum eftir að þetta gerðist í annað skiptið. Hún bað þá fólk um að hætta að henda dildóum inn á völlinn því þau gætu með því slasað leikmenn.

Leikurinn í nótt fór fram í Los Angeles og atvikið varð þegar rúmar tvær mínútur voru til hálfleiks.

„Þetta er fáránlegt og ákaflega heimskulegt,“ sagði Lynne Roberts, þjálfari Los Angeles Sparks. „Þetta er líka hættulegt og öryggi leikmanna verður að vera í fyrsta sæti. Við verðum að virða íþróttina og hætta þessari vitleysu,“ sagði Roberts.

Hér fyrir neðan má sjá atvikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×