Erlent

Stendur í vegi rann­sóknar á milljarða svika­myllu

Samúel Karl Ólason skrifar
Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands.
Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands. EPA/DUMITRU DORU

Grískir ráðherrar og háttsettir embættismenn eru grunaðir um að hafa svikið hundruð milljóna evra í formi landbúnaðarstyrkja frá Evrópusambandinu. Ólíklegt þykir að þeir verði sóttir til saka þar sem Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands, stendur í vegi rannsóknar.

Svikamylla þessi er sögð hafa snúist um árabil en embætti saksóknara Evrópusambandsins (EPPO) hefur sakað fjölda Grikkja um að taka við landbúnaðarstyrkjum vegna jarðareigna sem þeir eiga ekki og fyrir landbúnað sem þeir hafa ekki stundað. Er þetta sagt hafa komið niður á raunverulegum bændum í Grikklandi.

Opinber stofnun (OPEKEPE) tók við styrkjunum og deildi þeim út en hún hefur nú verið lögð niður.

Samkvæmt frétt Politico var gríska þinginu send í síðustu viku löng skýrsla þar sem meðal annars má lesa eftirrit af hlerunum þar sem menn ræða sín á milli um hvernig hægt sé að halda svikamyllunni gangandi og halda svo á spilunum svo fleiri geti grætt.

Mennirnir munu hafa svikið að minnsta kosti 290 milljónir evra frá Evrópusambandinu. Það samsvarar um 41,5 milljörðum króna.

Að minnsta kosti fimm núverandi og fyrrverandi ráðherrar hafa verið bendlaðir við málið og að minnsta kosti tíu þingmenn.

Mitsotakis hefur ákveðið að sækja umrædda menn ekki til saka og rannsaka málið ekki frekar og er það á þeim grunni að samkvæmt grískum lögum er það eingöngu gríska þingið sem getur sótt ráðherra til saka.

Einungis mánuður er síðan Mitsotakis hét því að komast til botns í málinu.

Á þingi í síðustu viku sagði forsætisráðherrann að Grikkland þyrfti ekki á þessum „skandal-æsingum“ að halda, heldur sannleikanum. Þá sagðist hann vilja finna varanlega lausn á vandamálinu en eins og áður segir hefur hann staðið í vegi ítarlegri rannsóknar í garð embættismanna.

Landbúnaðarráðherra sakaðir um spillingu

Í skýrslu EPPO segir að glæpasamtök sem innihéldu embættismenn frá OPEKEPE, áðurnefndri stofnun sem útdeildi styrkjum fyrir hönd ESB, og þingmenn og aðra sem tóku við styrkjum á ólöglegum grundvelli.

Embættismenn í landbúnaðarráðuneyti Grikklands eru sakaðir um að hafa unnið með svikahröppunum til að halda svikamyllunni gangandi. Einnig er spjótum beint að tveimur fyrrverandi landbúnaðarráðherrum og þeir sakaðir um fjársvik.

Í einu tilfelli var fyrrverandi yfirmanni OPEKEPE vikið úr starfi af öðrum áðurnefndum fyrrverandi landbúnaðarráðherra. Sá yfirmaður hafði þá reynt að stöðva fjölmargar styrkveitingar á þeim grunni að þörf væri á því að rannsaka þær nánar.

Eftir að honum var bolað ú starfi voru greiðslurnar, rúmlega níu þúsund talsins, sendar út.

Í skýrslu EPPO segir að frekari rannsókna sé þörf til að ná almennilega utan um umfang svikanna.

Þó umfangið liggi ekki fyrir er talið að þeir hafi stolið að minnsta kosti 290 milljónum evra. Leiðtogar ESB hafa vegna þessa lækkað landbúnaðarstyrki til Grikklands á næsta ári um fjögur hundruð milljónir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×