Erlent

Segja enn og aftur brotið gegn Folbigg

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kathleen Folbigg, til hægri, ásamt vinkonu sinni Tracy Chapman.
Kathleen Folbigg, til hægri, ásamt vinkonu sinni Tracy Chapman. AP/AAP/Dean Lewins

Lögmenn Kathleen Folbigg segja miskabætur sem yfirvöld í Ástralíu hafa boðið henni eftir að hún var fangelsuð að ósekju í 20 ár ósanngjarnar og óréttlátar.

Folbigg, sem var dæmd í 30 ára fangelsi árið 2003 fyrir að hafa orðið fjórum börnum sínum að bana, hafa verið boðnar tvær milljónir ástralska dala, jafnvirði 160 milljóna króna, í miskabætur en áður hafði verið gert ráð fyrir að hún fengi yfir tíu milljónir dala, hið minnsta.

Folbigg var náðuð árið 2023 eftir að rannsóknir leiddu í ljós að börn hennar þjáðust af afar sjaldgæfum erfðagöllum, sem eru taldir hafa leitt til þess að þau létust innan við tveggja ára gömul.

Vísir hefur fjallað nokkuð um málið en Davíð O. Arnar hjartalæknir ritrýndi rannsókn vísindamanna sem komust að þeirri niðurstöðu að tvær dætur Folbigg hefðu dáið sökum erfðabreytileika sem er þekktur fyrir að valda hjartastoppi, meðal annars hjá sofandi ungabörnum. 

Þá greindust drengir Folbigg með erfðabreytileika sem veldur alvarlegri og banvænni flogaveiki í músum. Annar drengjanna hafði greinst með flogaveiki áður en hann dó.

Lögmenn Folbigg segja kerfið enn á ný hafa brugðist henni og benda á að Lindy Chamberlain, sem var látin laus árið 1994 eftir að hafa verið ranglega fundin sek um að hafa myrt dóttur sína og varið þremur árum í fangelsi, fékk 1,7 milljón dala í miskabætur.

Mál Chamberlain varð alræmt líkt og mál Folbigg en hún hélt því ávallt staðfastlega fram að dingóhundur hefði rænt dóttur sinni.

Hvað Folbigg varðar segja bótaupphæðina hafa verið ákveðna að vandlega ígrunduðu máli. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×