Veður

Viðrar vel til gleði­göngu

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Útlit er fyrir bongóblíðu á hápunkti hinsegin daga í dag.
Útlit er fyrir bongóblíðu á hápunkti hinsegin daga í dag. Vísir/Sigurjón Ólason

Minnkandi lægðasvæði austur af landinu stjórnar veðrinu á landinu í dag. Áttin verður því norðlæg eða norðvestlæg, víða gola eða kaldi og súld eða rigning með köflum á Norður- og Austurlandi, en bjart að mestu suðvestan- og vestantil.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar er hita spáð frá átta stigum við norðurströndina, upp í 18 stig þar sem best lætur á Suðurlandi. Seint í dag dregur úr vætu fyrir norðan.

Fremur hæg norðlæg eða breytileg átt á morgun. Súld eða dálítil rigning á Norður- og Norðausturlandi, og einhverjar skúrir syðra, en birtir upp vestantil þegar líður á morguninn. Hiti breytist lítið.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:

Norðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s. Dálítil rigning norðaustanlands, og skúrir sunnantil, en léttir til á Vesturlandi. Hiti 8 til 17 stig yfir daginn, hlýjast um landið suðvestanvert.

Á mánudag:

Vaxandi suðaustanátt og þykknar upp sunnan- og vestanlands, 8-15 m/s síðdegis og rigning með köflum. Hægari vindur og bjart að mestu um landið norðaustanvert. Hiti víða 10 til 17 stig.

Á þriðjudag:

Suðaustan 5-13 og rigning með köflum, en lægir með morgninum. Hiti 9 til 15 stig. Úrkomuminna um kvöldið.

Á miðvikudag:

Breytileg átt, skýjað með köflum og sums staðar dálítil væta. Hiti breytist lítið.

Á fimmtudag:

Vestlæg átt og rigning með köflum eða skúrir. Hiti 9 til 16 stig, mildast austantil.

Á föstudag:

Norðvestlæg átt og dálitlar skúrir, en léttskýjað suðaustanlands. Heldur kólnandi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×