Íslenski boltinn

Um­ræða um hártog Þróttarakonu í Bestu mörkunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marit Skurdal lyfti rauða spjaldinu strax þegar hún sá Þróttarann Sóley María Steinarsdóttir rífa í hárið á Víkingnum Lindu Líf Boama. Mist Rúnarsdóttir var ekki eins sannfærð.
Marit Skurdal lyfti rauða spjaldinu strax þegar hún sá Þróttarann Sóley María Steinarsdóttir rífa í hárið á Víkingnum Lindu Líf Boama. Mist Rúnarsdóttir var ekki eins sannfærð. Vísir/Diego/Sýn Sport

Bestu mörkin tóku fyrir umdeilda dóma í leik Þróttar og Víkings í síðustu umferð Bestu deildar kvenna. Norski dómarinn Marit Skurdal hafði í nægu að snúast í leiknum og hártog þýddi bara eitt í hennar augum.

„Svona er lífið stundum. Það er erfitt að vera dómari,“ sagði Helena Ólafsdóttir, umsjónarkona Bestu markanna.

Hún og sérfræðingarnir ræddu tvö brot á leikmönnum Víkings sem Skurdal dæmdi ekki á og Víkingar voru mjög ósáttir með.

Falleg stund

Mist Rúnarsdóttir hrósaði samt Þrótturum fyrir tvennt. Bæði aðstoðaði sjúkraþjálfari þeirra leikmann Víkings þegar það voru tveir Víkingar meiddir á sama tíma eftir fyrrnefnd brot og svo biðu Þróttarar eftir því að þessir tveir leikmenn kæmu aftur inn á völlinn svo að Víkingur væri ekki níu á móti ellefu.

„Þetta var svona falleg stund,“ sagði Mist. Þróttur endaði leikinn samt tíu á móti ellefu.

Skurdal lyfti rauða spjaldinu strax þegar hún sá Þróttarann Sóley María Steinarsdóttir rífa í hárið á Víkingnum Lindu Líf Boama. Mist varði hins vegar hártog Þróttarakonunnar og segir að hún hefði átt frekar að fá bara gult spjald.

Klippa: Ræddu brot, hártog og rautt spjald í leik Þróttar og Víkings

„Maður er svolítið fastur í þeirri pælingu að hártog sé beint rautt en,“ sagði Mist en Helena skaut inn i: „Það er tísku svolítið.“ Mist hélt áfram:

Lá yfir reglunum

„Hún ætlar að toga í treyjuna á henni en togar í hárið á henni aðeins. Ég lá yfir reglunum af því að mér fannst þetta áhugavert. Ég var föst á því þegar ég var að lýsa að þetta er bara rautt,“ sagði Mist.

„Þetta er ekki fólskulegt. Þetta er meira það sem kallast skeytingarlaust. Hún er ekki að reyna að meiða og síðasta manneskjan væri þá fyrri liðsfélagi hennar Linda Líf,“ sagði Mist.

„Ef þetta er skeytingarlaust þá er það þegar þú ert ekki að pæla í hugsanlegum afleiðingum og þá áttu að fá áminningu. Svo er það heiftarlegt brot ef þú ert að beita óþarfa afli og ógna öryggi hans og þá á að reka út af,“ sagði Mist en viðurkenndi þó að það mætti alveg fabúlera með þetta fram og til baka.

Ekki viljandi hártog

„Ég er alveg hundrað prósent á því að þetta er ekki viljandi hártog hjá Sóleyju Maríu. Ég skil alveg að dómarinn hafi lyft rauðu þó að það sé kannski hart,“ sagði Mist.

Svo er það spurning um leikbannið og hvort það verður meira en einn leikur. 

Elaina Carmen, markvörður Fram, fékk tveggja leikja bann fyrir hártog sem hún slapp með, í einmitt leik á móti Þrótti. Verður Sóley María þá dæmd í tveggja leikja bann líka eða sleppur hún með einn leik?

Það má horfa á alla umræðuna um brotin, hártogið og rauða spjaldið hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×