Fótbolti

Ísak skoraði en Lyngby tapaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísak Snær Þorvaldsson hefur skorað þrjú mörk í fyrstu fjórum deildarleikjunum með Lyngby.
Ísak Snær Þorvaldsson hefur skorað þrjú mörk í fyrstu fjórum deildarleikjunum með Lyngby. @lyngbyboldklub

Íslenski framherjinn Ísak Snær Þorvaldsson kom inn í byrjunarliðið hjá Lyngby í dönsku b-deildinni og skoraði en það dugði þó ekki til.

Lyngby varð að sætta sig við 2-1 tap á heimavelli á móti Hvidovre.

Ísak hafði skorað tvö mörk í fyrstu þremur leikjum sínum með Lyngby en alltaf komið inn á sem varamaður.

Nú fékk hann byrjunarliðssætið og Ísak jafnaði leikinn á 49. mínútu eftir að Marvin Egho hafði komið Hvidovre yfir úr vítaspyrnu á 19. mínútu.

Mark Ísaks kom með skalla eftir fyrirgjöf frá Gustav Fraulo.

Frederik Högh Jensen skoraði sigurmark Hvidovre á 79. mínútu. Ísak var tekinn af velli á 71. mínútu og var því ekki inn á vellinum þegar mark Jensen kom.

Lyngby hafði náð í sjö stig af níu mögulegum úti úr fyrstu þremur leikjunum en þetta var fyrsta tapið. Þetta var einnig fyrsti sigur Hvidovre á leiktíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×