Viðskipti innlent

Sögu­legur hagnaður á samrunatímum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku.
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku. Aðsend

Hagnaður Kviku banka eftir skatta á öðrum ársfjórðungi nam rúmlega 1,4 milljarði króna samanborið við 777 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Forstjórinn telur samruna við Arion banka munu taka níu til tólf mánuði.

Kvika skilaði uppgjöri til Kauphallar í dag. Þar kemur fram að rekstrarkostnaður hafi aukist um 250 milljónir á milli ára eða sem nemur rúmum níu prósentum. Aukinn hagnaður eftir skatt er upp á 85 prósent.

Ármann Þorvaldsson bankastjóri segir rekstrarhagnaðinn þann mesta sem bankinn hafi skilað á fjórðungi. Sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka hafi gengið vel, fyrsta skuldabréf bankans í evrum hafi verið gefið út og nýr fagfjárfestasjóður upp á átta milljarða stofnaður innan eignastýringar.

Nú standi fyrir dyrum samrunaferli við Arion banka. Sameinaður banki hafi burði til að skapa aukið virði fyrir alla hagsmunaaðila.

„Gert er ráð fyrir að samrunaferlið taki að minnsta kosti 9–12 mánuði. Nú er unnið hörðum höndum að áreiðanleikakönnun og undirbúningi forviðræðna við Samkeppniseftirlitið með það að markmiði að staðfesta raunhæfi verkefnisins og greina hugsanlegar hindranir snemma í ferlinu. Á meðan ferlinu vindur áfram höldum við ótrauð áfram að vinna að daglegum rekstri og byggjum á þeim árangri sem þegar hefur náðst.“


Tengdar fréttir

Arion og Kvika í samrunaviðræður

Stjórn Kviku banka hefur samþykkt að verða við beiðni stjórnar Arion banka um að hefja formlegar samrunaviðræður milli bankanna, og hefur viljayfirlýsing þess efnis verið undirrituð af hálfu beggja aðila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×